Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ýktari sveifla á Suðurnesjum
Kristinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Securitas á morgunfundi Landsbankans á Park-Inn hótelinu. VF-myndir/pket.
Þriðjudagur 6. desember 2016 kl. 06:00

Ýktari sveifla á Suðurnesjum

- Þurfum að leita til útlanda eftir starfsfólki, segir Kristinn Óskarsson í Securitas

„Svæðið okkar hefur sveiflast „ýktar“ en hagsveiflan sem lýsir sér vel í mikilli eftirspurn eftir starfsfólki. Það er ljóst að við sem og fleiri munum þurfa að leita út fyrir landssteinana eftir því,“ sagði Kristinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Securitas á Suðurnesjum á morgunfundi Landsbankans á Park-Inn hótelinu nýlega.

Kristinn flutti stutta tölu á fundinum undir heitinu „Áskoranir í rekstri á Reykjanesi“ sem hann lýsti fyrst í fáum orðum sem „ókyrrð í meðbyr“. Hann sagði deild fyrirtækisins á Reykjanesi hafa vaxið hratt frá stofnun árið 2009. Um 20 starfsmenn hefðu verið í upphafi en aukin verkefni í flugstöðinni samfara fjölgun ferðamanna, sem og almenn aukning í þjónustu fyrir Suðurnesjamenn hafi kallað á stækkun og fleiri starfsmenn. Kristinn sagði að fjöldi starfsmanna færu í um 60 á næsta ári. Nærri helmingur þess fjölda kemur að verkefnum fyrirtækisins í flugstöð Leifs Eiríkssonar en Securitas sér um þjónustu við farþega sem þurfa aðstoð vegna fötlunar eða skertrar hreyfigetu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kristinn nefndi að húsnæðisskortur muni hafa áhrif varðandi fjölgun starfsmanna og ljóst að það yrði stórt verkefni að leysa á næstunni. Vöxtur svæðisins kallaði á nokkra þætti eins og nýtingu þeirra fjárfestinga sem þegar hafi verið ráðist í, svo sem í gatnagerð í Innri-Njarðvík og auknar fjárfestingar í einkageiranum sem og þeim opinbera. Þá muni þrýstingurinn á svæðinu hafa áhrif á húsnæðisverð og laun sem muni setja þrýsting á verðbólgu.

Á fundinum var greint frá nýrri þjóðhagsspá Hagfræðideildar Landsbankans en þar er gert ráð fyrir áframhaldandi kröftugum hagvexti til ársins 2019 og að hagvöxtur verði ríflega 6 prósent á þessu ári, 5,5 prósent árið 2017 en muni svo lækka niður í 3 prósent árið 2019. Jafnframt er gert ráð fyrir að verðbólga hækki smám saman í átt að verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands en að kröftugur hagvöxtur með vaxandi framleiðsluspennu muni að öllum líkindum ýta verðbólgunni upp fyrir verðbólgumarkmiðið á næsta ári.