Yfirvöld styðji betur við Grindvíkinga í ólgusjó
Bæjarstjórn Grindavíkur, ásamt Verkalýðsfélagi Grindavíkur, Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur og Félagi eldri borgara, hefur sent frá sér tillögur á yfirvöld að styðja betur við Grindvíkinga í þeim ólgusjó sem enginn valdi sér að standa frammi fyrir.
Í tillögunum er farið fram á að Grindvíkingar sem eru á leið á fasteignamarkaðinn í kjölfar náttúruhamfara njóti sömu kjara og fyrstu kaupendur sem eru m.a. afsláttur af stimpilgjöldum, ráðstöfun á viðbótarlífeyrissparnaði skattfrjálst í útborgun og aðgangur að hlutdeildarlánum.
„Yfirlýsing hefur verið send stjórnvöldum en við höfum því miður ekki fengið viðbrögð frá þeim sem ráða ferðinni á þessum tímapunkti. Við vonum að aðilarnir sem sendu yfirlýsinguna fái áheyrn eða nái athygli um þetta gífurlega hagsmunamál áður en yfir lýkur,“ segir í pistli frá bæjarstjórn Grindavíkur.