Yfirlýsing Varnarliðsins: áætlanir gerðar til að bregðast við fjölbreyttum aðstæðum
Víkurfréttum hefur borist yfirlýsing frá Varnarliðinu varðandi frétt blaðsins sl. föstudag þar sem vitnað er til háttsetts yfirmanns hjá Varnarliðinu um að áætlanagerð um 30% niðurskurð, til viðbótar þeim 18% sem nú er unnið að, sé ráðgerður á næstunni. Víkurfréttir hafa gögn undir höndum sem sýna áætlanir sem gera ráð fyrir allt að 30% niðurskurði og sagðist yfirmaðurinn, sem ekki vill láta nafns síns getið að hann hefði ekki tekið áður þátt í slíkri áætlanagerð. Yfirmaðurinn hefur starfað hjá Varnarliðinu í áratugi.
Í yfirlýsingu frá Varnarliðinu vegna fréttarinnar kemur fram að slíkar áætlanir séu reglulega gerðar til að hægt sé að bregðast við fjölbreyttum aðstæðum sem upp kunna að koma, líkt og í öðrum stórum opinberum stofnunum og einkafyrirtækjum.
Yfirlýsing Varnarliðsins:
„Vegna fréttar blaðsins síðastliðinn föstudag er rétt að taka fram að rekstur starfsemi á borð við herlið og landvarnir grundvallast á gerðkannana og áætlana svo bregðast megi við fjölbreyttum aðstæðum sem upp kunna að koma líkt og í öðrum stórum opinberum stofnunum og einkafyrirtækjum. Varnarliðið og rekstrareiningar þess vinna stöðugt að gerð kannana á rekstrinum og þykir eðli málsins samkvæmt ástæðulaust að fjalla um þau störf opinberlega, enda langur vegur frá því að slíkar kannanir leiði allar til breytinga.
Markmiðið með því að grípa svo snemma til uppsagna starfsmanna var að takmarka sem mest fjölda uppsagna þannig að þær hefðu ekki áhrif á skyldur Flotastöðvarinnar til að halda uppi fullum rekstri Keflavíkurflugvallar og skyldur Varnarliðsins vegna öryggis landsins. Skal í því sambandi meðal annars nefna rekstur flugvallarslökkviliðs, hálkuvarnir á flugbrautum, viðhald flugleiðsögutækja og flugvallarmannvirkja auk annarrar öryggisþjónustu. Þótt launakostnaður sé yfir 70 prósent af rekstrarfé stöðvarinnar, verður nærri tveimur þriðju hlutum niðurskurðarins mætt með öðrum ráðstöfunum, t.d. rekstrarsparnaði á öðrum sviðum og frestun viðhaldsframkvæmda.“
Áætlanir um stórfelldan niðurskurð hjá Varnarliðinu [frétt vf.is sl. föstudag]