Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar vegna orku- og auðlindamála
Stjórnarflokkarnir eru sammála um mikilvægi þess að standa vörð um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum sínum í samræmi við ákvæði samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og sérstaka yfirlýsingu hennar um orkumál frá 18. maí 2010 (sjá fylgiskjal 2) þar sem m.a. kemur fram að ekki verði á starfstíma ríkisstjórnarinnar hróflað við eignarhaldi ríkisins á orkufyrirtækjum og unnið að því að ákvæði um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum verði tekið upp í stjórnarskrá. Ríkisstjórnin einsetur sér að stöðva það einkavæðingarferli á orkufyrirtækjum landsins sem hafið var í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og tryggja samfélagslegt forræði á auðlindum og orkufyrirtækjum. Í samræmi við þessa markmiðssetningu hefur ríkisstjórnin ákveðið að sérstaklega skuli rannsaka tildrög þess að HS Orka sé komin í meirihlutaeigu einkaaðila með það fyrir augum að hægt sé að vinda ofan af þeirri niðurstöðu. Í þessu skyni hefur ríkisstjórnin, eftir viðræður við fulltrúa þingflokka sinna, samþykkt eftirfarandi:
1. Forsætisráðherra skipi sérstaka nefnd óháðra sérfræðinga til þess að rannsaka og yfirfara einkavæðingu í orkugeiranum á undanförnum árum. Sérstaklega verði horft til einkavæðingarferlis Hitaveitu Suðurnesja, síðar HS Orku, og söluferlis einstakra eignarhluta, ekki síst kaupa Magma Energy á eignarhlutum í fyrirtækinu í ljósi vafa um lögmæti þeirra viðskipta. Vinnu nefndarinnar skal hagað með eftirfarandi hætti.
1.
Lögmæti kaupa Magma Energy á eignarhlutum í HS Orku í gegnum dótturfélag í Svíþjóð. Niðurstöðum þessa þáttar skal skilað fyrir 15. ágúst nk.
Einkavæðingarferli Hitaveitu Suðurnesja, síðar HS Orku. Niðurstöðum þessa þáttar skal skilað fyrir lok september nk.
Starfsumhverfi orkugeirans. Niðurstöðum þessa þáttar skal skilað fyrir lok desember nk.
2. Forsætisráðherra, fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra og umhverfisráðherra sem og þingflokkar stjórnarflokkanna tilnefna hver einn fulltrúa í sérstakan starfshóp sem hefji þegar störf og undirbúi lagafrumvarp er tryggi opinbert eignarhald á mikilvægum orkufyrirtækjum og takmarki eignarhald einkaaðila. Meðal annars verði horft til niðurstaðna nefndar ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu í orkugeiranum við mótun löggjafar og hvernig best megi aðlaga núverandi ástand mála nýrri löggjöf. Stefnt skal að framlagningu nýs lagafrumvarps í samræmi við niðurstöðu starfshópsins fyrir lok októbermánaðar 2010. Samhliða munu forsætisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið halda áfram þeirri vinnu sem þar er hafin á grundvelli skýrslu nefndar Karls Axelssonar varðandi gjaldtöku fyrir nýtingu vatnsréttinda í eigu ríkisins og tímalengd samninga ofl. Skal niðurstaða þeirrar vinnu liggja fyrir á sama tíma.
3. Efnahags- og viðskiptaráðherra upplýsir málsaðila um það með bréfi, að á vegum stjórnvalda sé að fara af stað sjálfstæð og óháð rannsókn sem lýtur að lögmæti kaupa Magma sem erlends aðila, málið hafi verið sent til umboðsmanns Alþingis, ríkisstjórnarflokkarnir séu að hefja vinnu sem miði að endurskoðun lagaumhverfis varðandi eignarhald á orkufyrirtækjum, þ.á m. um takmarkanir á eignarhaldi einkaaðila, og málið sé til skoðunar og unnið að stefnumótun á pólitískum vettvangi og kunni allt framangreint að hafa áhrif á framtíðarstöðu opinberra jafnt sem einkaaðila á sviði orkumála. Ríkisstjórnin sé staðráðin í að vinda ofan af einkavæðingu innan orkugeirans og tryggja eftir megni að mikilvægustu orkufyrirtæki landsins séu á forræði opinberra aðila. Ráðherra og ríkisstjórn hafi því ekki tekið endanlega afstöðu til fjárfestingar fyrirtækisins og yfirfari nú framtíðar rekstrar- og lagaumhverfi fyrirtækja í orkugeiranum svo sem að ofan greinir.