Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Yfirlýsing bæjarráðs Sandgerðis vegna strands Wilson Muuga
Þriðjudagur 26. desember 2006 kl. 13:55

Yfirlýsing bæjarráðs Sandgerðis vegna strands Wilson Muuga

Bæjarráð Sandgerðisbæjar telur algjört forgangsatriði að olíu úr Wilson Muuga verði hið fyrsta komið á land til að koma í veg fyrir umhverfisslys á fjörum og við strendur bæjarfélagsins af völdum olíumengunar.

Bæjarráð vill hinsvegar taka fram að gæta þarf fyllsta öryggis á strandstað og að starfsmönnum verði ekki stefnt í voða í ljósi þess að nú þegar hefur einn látist við björgunarstörf á svæðinu.

Bæjarráð hefur því fullan skilning á að taka þurfi mið af aðstæðum.

Bæjarráð gerir því ekki athugasemd við þá ákvörðun sérfræðinga á vegum Umhverfisstofnunnar að vinna á strandstað verði takmörkuð á meðan veður og straumar ógna öryggi starfsmanna á þeirra vegum.
Bæjarráð telur hinsvegar rétt að leggja áherslu á þá skoðun bæjaryfirvalda að mikilvægt er að vinna við dælingu olíunnar á land hefjist um leið og aðstæður til þess skapast og treystir sérfræðingum Umhverfisstofnunar og þeim sem á hennar vegum starfa til að tryggja að svo verði.

Af gefnu tilefni er einnig rétt að taka það fram að bæjaryfirvöld eða starfsmenn Sandgerðisbæjar taka engan þátt í ákvarðanatöku eða framkvæmd aðgerða á strandstað.
Umhverfisráð bæjarfélagsins, bæjarráð og bæjarstarfsmenn eru til reiðu og munu bregðast við ef og þegar eftir því verður leitað undir stjórn Umhverfis-stofnunar og í samráði við heilbrigðiseftirlit Suðurnesja.

 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu bæjarráðs Sandgerðis frá 24. desember sl.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024