Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Yfirfullar ruslatunnur taka á móti ferðamönnum
Mynd frá Tómasi J. Knútssyni
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
mánudaginn 18. júlí 2022 kl. 14:05

Yfirfullar ruslatunnur taka á móti ferðamönnum

„Þetta er metnaðarleysi að hafa þetta ekki í lagi,“ segir Tómas J. Knútsson, stofnandi Bláa hersins, í færslu sinni á Facebook um sorpumhirðu í kringum Keflavíkurflugvöll. Tómas lét myndir af troðfullum ruslatunnum við bygginguna fylgja með færslunni. Í samræðum við blaðamann víkurfrétta segir Tómas það vera dapurt að Ísland sé auglýst sem hreint land en rusl og óhreinindi séu það fyrsta sem tekur á móti ferðamönnum sem koma til landsins. „Hvaða ímynd fær fólk af landinu þegar það sér tunnurnar yfirfullar, girðingarnar stráðar rusli og rusl með fram Reykjanesbrautinni?“

Tómas er umhverfissinni en hann hefur meðal annars fengið fálkaorðu fyrir störf hans í umhverfismálum og umhverfisvernd. Aðspurður hvers vegna hann hafi ákveðið að setja umrædda færslu á Facebook segir hann: „Ég var svolítið pirraður í gær, þetta virðist vera algjört metnaðarleysi. Ég kem aldrei þarna [á Keflavíkurflugvöll] öðruvísi en að tunnurnar séu fullar“ og bætir við: „Ég held það séu komin átján ár frá því að Blái herinn byrjaði að taka rusl í kringum flugstöðina ásamt Isavia og fleirum. Það er ekkert eðlilegt að það séu á milli eitt og þrjú tonn fengin í kringum Flugstöð Leifs Eiríkssonar hvert einasta ár. Þetta er kallað metnaðarleysi.“

Mynd frá Tómasi J. Knútssyni

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fjöldi fólks hefur skrifað ummæli og deilt færslunni og virðast flestir vera sammála Tómasi. Undir færslunni má finna ummæli eins og þessi: „[Ég] fór um flugstöðina í gær og hún var drulluskítug“ og „það virðist sem einhver sé ekki að sinna vinnunni sinni.“

Þó virðast sumir geta horft á jákvæðu hliðina á málinu en ein ummælin hljóða svo: „Það er hægt að líta jákvætt á þetta líka, fólk hendir í ruslið, en að sjálfsögðu þarf að losa líka.“ Tómas segir það vera frábært að fólk skyldi henda rusli í tunnurnar en segir jafnframt að þá þurfi að vera með „nógu margar tunnur eða sinna þeim nógu oft svo þær séu ekki yfirfullar“ og kastar á sama tíma fram spurningunni: „Því hvenær er logn á Suðurnesjum?“

Að lokum bætir hann við að það sé samvinnuverkefni að halda landinu okkar hreinu. „Þetta er ekki í lagi en þetta á að vera samvinnuverkefni hjá okkur að finna réttu lausnina. Öll umræða um það hvernig við getum bætt þetta er stefna í rétta átt.“

Facebook færslu Tómasar má sjá hér: https://www.facebook.com/tomas.j.knutsson/posts/pfbid025mPgpFLy8tFsLuvbv7erJPgLjGySWuaNx4MvnbY55VGzWnHruSgvJFobNYS6cg56l