Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Yfirfærsla láns til Magma samþykkt í bæjarráði
Þriðjudagur 3. ágúst 2010 kl. 14:36

Yfirfærsla láns til Magma samþykkt í bæjarráði


Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti fyrir helgi yfirfærslu láns frá Geysi Green Energy (GGE) til Magma Energy vegna viðskiptanna með HS Orku. Nafnverð bréfsins er rúmlega 6,3 milljarðar en það var gefið út vegna sölu Reykjanesbæjar á hlut sínum í HS Orku til GGE. Reyknesbær hefur óskað eftir því að bréfið verði greitt upp fyrr en skilmálar þess gera ráð fyrir.

Í  framhaldi samþykktar bæjarráðs verða teknar upp viðræður um breytingar eða mögulega greiðslu lánsins, eins og segir í fundargerð ráðsins. Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs, var inntur eftir því hvað fælist í þeim orðum.
„Samhliða því erindi sem hér var til umfjöllunar (þ.e. nafnabreytingu á bréfinu) óskaði Reykjanesbær eftir að bréfið yrði greitt upp fyrr en skilmálar þess gera ráð fyrir. Ekki var mögulegt að ganga frá því samhliða þessari breytingu en viðræður um það munu engu að síður eiga sér stað á milli aðila í framhaldinu. Þar sem Magma er umtalsvert betri greiðandi en GGE var skynsamlegt að samþykkja skuldarabreytinguna án skilyrða og ræða við nýjan greiðanda í framhaldi um mögulegar breytingar eða innáborganir á lánið,“ svaraði Böðvar.

Nafnverð bréfsins er rúmlega 6,3 milljarðar. Höfuðstóll lánsins á að greiðast með einni greiðslu árið 2016. Vextir af bréfinu eru greiddir árlega. Til tryggingar skuldabréfinu liggja hlutabréf sem Reykjanesbær seldi í HS Orku þannig að ef bréfið verður ekki greitt verður Reykjanesbær aftur hluthafi í HS Orku, að sögn Böðvars þegar hann var spurður um veðin á bak við bréfið.

Ross Beaty, forstjóri Magma, lét hafa eftir sér  í fjölmiðlum um helgina að hann íhugaði að hætta við eða fresta kaupunum sem hafa orðið tilefni harðra viðbragða hér landi eins og kunnugt er.

Böðvar segist þeirrar skoðunar að forstjóri Magma geti ekki hætt við kaupin á HS Orku einhliða og hann vilji auðvitað helst ljúka viðskiptunum eins og forstjóri Magma á Íslandi hafi sjálfur sagt.
„Engu að síður eru hluthafar Magma orðnir mjög hvekktir á endalausum upphlaupum stjórnarliða í ríkisstjórn. Þrátt fyrir að málið hafi verið á borði fjármálaráðherra í meira en ár hefur ekkert verið gert í þessu máli fram til þessa. Það er eðlilegt að erlendir aðilar sem hafa áhuga á að fjárfesta á Íslandi til þess að byggja upp atvinnu hér á landi verði hissa á að nú eigi allt í einu að stöðva málið.
Ég tel að þegar ríkisstjórnin hefur kynnt sér lagalegar forsendur viðskiptanna muni hún ekki gera neitt - en þessi upphlaup stjórnarinnar tefja framkvæmdir og valda óvissu á meðan,“ sagði Böðvar í samtali við VF.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024