Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Yfirdrifin orka fyrir Helguvík
Miðvikudagur 14. september 2011 kl. 10:17

Yfirdrifin orka fyrir Helguvík

Fyrirhugaðar orkuframkvæmdir á suðvesturlandi geta gefið allt að 1.500 MW af orku sem er nærri þrefalt meira en þarf fyrir álver í Helguvík, segir á heimasíðu Norðuráls. Nokkur umræða hefur spunnist síðustu daga um orkuöflun til álvers Norðuráls í Helguvík. Þar hafa margir viðrað þá skoðun að erfitt verði að afla orku fyrir þetta verkefni. Þær skoðanir virðast flestar byggjast á mjög lítilli gagnaöflun eða þekkingu. Í sumum tilfellum er augljóslega leitast við að gera verkefnið tortryggilegt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lítum aðeins á málin í samhengi. Næg orka er til á suðvesturlandi bæði fyrir álverið í Helguvík og aðra starfsemi. Þar er einfaldast að líta til þess sem þegar er á teikniborðinu. Í dag liggur fyrir mat á umhverfisáhrifum á virkjunum á Reykjanesi, Hellisheiði og í Þjórsá sem áætlað er að muni skila 760 MW. Innifalið í þessari tölu eru ekki virkjanamöguleikar í Gráuhnjúkum og Eldvörpum, þar sem þegar eru til borholur sem skilað hafa mikilli orku. Talið er að þessi svæði muni skila a.m.k. 100 MW. Að auki gæfi Norðlingaölduveita, sem þegar hefur farið í gegnum umhverfismat, verulega aukna orku til virkjana Landsvirkjunar í Þjórsá. Sú orka jafngildir um 80 MW virkjun. Þá er enn ótalið Krýsuvíkursvæðið sem samkvæmt Rammaáætlun um nýtingu vatnsorku og jarðvarma inniheldur 5 jarðhitasvæði sem hvert um sig gæti gefið um 100 MW eða 500 MW samtals. Við þetta má svo enn bæta við að Landsvirkjun á þó nokkra óselda orku í sínum kerfum í dag.

Ef allir þessir virkjanakostir eru lagðir saman fæst að orkuöflun sem þegar er á teikniborðinu á suðvesturlandi nemur um 1.500 MW. Álver í Helguvík þarf 625 MW þegar það er komið í fulla stærð eða um 40% af ofangreindum áformum.

Það er því fjarstæða að halda því fram á álverið sé að nota alla tiltæka orku. Jafnvel þótt einhverjir ofangreindra orkukosta reynist ekki hagkvæmir eða framkvæmanlegir er yfirdrifin orka til fyrir álverið í Helguvík og aðra starfsemi, segir á heimasíðu fyrirtækisins.