Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Yfir helmingur verslana selur tóbak til unglinga yngri en 18
Fimmtudagur 5. júní 2003 kl. 11:38

Yfir helmingur verslana selur tóbak til unglinga yngri en 18

Þann 8. apríl sl. var gerð könnun á tóbakssölu til unglinga yngri en 18 ára. Könnuð var sala á 31 útsölustað á Suðurnesjum sem hlotið hafa leyfi heilbrigðisnefndar til tóbakssölu. Alls seldu 17 (55%) þessara staða tóbak til ungmenna yngri en 18 ára. „Þessi niðurstaða olli okkur miklum vonbrigðum“, sagði Ásmundur E. Þorkelsson Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja í samtali við Víkurfréttir. „Við héldum að það yrði erfitt fyrir unglingana að fá afgreitt tóbak hérna á Suðurnesjum. Fyrri kannanir höfðu sýnt að þeim stöðum sem selja unglingum tóbak fer ört fækkandi og sem dæmi þá seldi tæpur fjórðungur verslana unglingum tóbak í síðustu könnun. Vonir stóðu til þess að með nýju tóbaksvarnarlögunum heyrði það nánast sögunni til að unglingar gætu fengið afgreitt tóbak í verslunum“.Könnunin fór þannig fram að Samtök félagsmiðstöðva á Suðurnesjum (SamSuð) valdi 15 ára unglinga úr félagsmiðstöðvum á svæðinu til að taka þátt SamSuð og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafa gert með sér sérstakan samstarfssamning um gerð slíkra kannana.Aflað var skriflegs samþykkis foreldra þeirra fyrir þátttöku í könnuninni. Á sölustöðum báðu ungmennin um einn pakka af algengri tegund vindlinga. Í kjölfarið kom fullorðinn fylgdarmaður og kynnti könnunina og árangur verslunarinnar. Í þeim tilvikum sem sala fór fram var farið fram á að tóbaki væri skilað og það fengist endurgreitt. Orðið var við því í öllum tilvikum.

Ásmundur segir ástæðuna fyrir því að verslanir á Suðurnesjum komi svo illa út úr könnuninni hljóti að vera andvaraleysi verslunareigenda og afgreiðslufólks. „Við trúum því frekar en að það sé vilji verslunareigenda að unglingar eigi greiðan aðgang að tóbaki. Við gerum okkur þó vonir um að þessi könnun veki menn til umhugsunar og verslunareigendur brýni fyrir starfsfólki sínu að spyrja þá sem kaupa tóbak um skilríki ef minnsti vafi er á að kaupandinn hafi náð 18 ára aldri“.

Hann segir þessar niðurstöður sýna að efla verði eftirlit með tóbakssölu. „Við leggjum einmitt sérstaka áherslu á þau mál um þessar mundir. Verslanirnar bera mikla samfélagslega ábyrgð. Það er hluti af forvarnaraðgerðum að meina unglingum aðgangi að tóbaki fram til 18 ára aldurs. Verslanirnar verða að geta axlað þessa ábyrgð ef þær ætla að halda áfram að selja þessa vöru“.

Allur gangur var á því hvernig verslanir tóku þessum könnunum að sögn Ásmundar. Eftir að málin voru rædd voru allir sæmilega sáttir og staðráðnir í að gera betur í framtíðinni. „Það voru einmitt 15-16 ára unglingar sem hjálpuðu okkur í þessu verkefni og þannig augljóst að verslunareigendur eiga sér engar málsbætur að selja svo ungu fólki tóbak“, sagði Ásmundur.

Hvernig verður tekið á þessum málum?
Þeim verslunum sem varð á að selja unglingum tóbak var sent harðort bréf. Ætlunin er að gera sams konar kannanir á næstunni, en dagsetningum verður þó haldið leyndum. Samkvæmt tóbaksvarnarlögum ber að svipta þá tóbakssöluleyfi sem ítrekað verða uppvísir að sölu til unglinga. Ef verslanirnar ná ekki að bæta úr þessum málum er ljóst að tóbakssöluleyfi verða afturkölluð.

Staðir sem ekki seldu unglingum tóbak í könnun 8. apríl 2003:
Garði.
Sparkaup Garði
Grindavík.
Myndsel
Olíuverslun Íslands
Verslunin Bára
Reykjanesbæ.
10-11 Hraðkaup
Biðskýlið Njarðvík
Bónus-Video
Brautarnesti
Fitjaborg
Hemmi og Valdi
Ný-ung ehf. Hafnargötu 12
Olíufélagið – Aðalstöðin
Sparkaup Hringbraut
Vogum.
Esso Vogum

Staðir sem seldu unglingum tóbak í könnun 8. apríl 2003:
Garði.
Hraðbúð ESSO
Grindavík.
Aðal-Braut
Samkaup Grindavík
Söluturninn Víkurbraut 62
Í Reykjanesbæ.
Fitjagrill
G. Hreinsson ehf - Fíakaup
Kasko Keflavík
Nóatún
Ný-ung
Olíufélagið
Olíuverslun Íslands
Samkaup Njarðvík
Verslunin Hólmgarður
Í Sandgerði.
Sparkaup Sandgerði
Verslunin Aldan
Vökull ehf.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024