Yfir á rauðu og inn í sorpgeymslu!
Mjög harður árekstur varð í morgun á mótum Hringbrautar og Aðalgötu í Keflavík. Eldri maður ók yfir á rauðu ljósi þar sem hann ók norður Hringbraut og ók í veg fyrir aðra bifreið. Eftir árekstur við bifreiðina fór bifreiðin sem ekið var eftir Hringbraut í gegnum girðingu og alla leið inn í sorpgeymslu fjölbýlishússins að Hringbraut 72.Eignatjón var mikið í þessum árekstri, auk þess sem slys urðu á fólki. Þau voru hins vegar minniháttar að sögn lögreglu. Fjarlægja þurfti bílana með dráttarbíl og eins og sjá má á meðfylgjandi mynd eru litlar líkur til þess að þessi bifreið fari aftur í umferðina.