Yfir 500 þegar bólusettir við inflúensu
Mun fleiri hafa verið bólusettir hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja gegn inflúensu nú í haust en á sama tíma í fyrra. Í fyrradag var fjöldinn kominn upp í 508 en var 100 á sama tíma í fyrra. Bólusetningar á HSS gegn inflúensu hófust 14. september. Frá þessu er greint á vef HSS.
Bólusetningar eru ekki enn hafnar á heilsugæslustöðvum í Reykjavík og ekki stóð til að hefja þær á HSS fyrr en 27. september, en eftir að inflúensu varð vart á Landspítalanum í síðustu viku brugðust stjórnendur HSS skjótt við og flýttu flensubólusetningum ásamt því að fjölga starfsfólki í verkið.
Mikið hefur verið að gera og voru 150 bókaðir bæði í gær og í dag. Alls voru rúmlega 1500 manns bólusettir fyrir inflúensu síðasta haust á HSS.