Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Yfir 20 milljón króna útgjaldaukning án heimildar eða vitneskju bæjarráðs
Miðvikudagur 4. apríl 2007 kl. 11:05

Yfir 20 milljón króna útgjaldaukning án heimildar eða vitneskju bæjarráðs

Útgjaldaaukning við Sundmiðstöðina í Reykjanesbæ upp rúman annan tug milljóna virðist hafa orðið til án vitneskju bæjarráðs og að því er virðist algjörlega án nokkurrar heimildar. Bæjarráð heimilaði ekki þennan útgjaldaauka á síðasta ári og vísaði honum til frjárhagsáætlunar 2007. Engu að síður hefur komið í ljós að stofnað var til verulegra útgjlda á sviði MÍT á síðasta ári, umfram það sem áætlanir gerðu ráð fyrir og heimildir leyfðu, segir í bókun sem Guðbrandur Einarsson, lagði fram fyrir hönd A-lista á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær.
Í henni segir að útgjaldaaukningin beri þess merki að sveitarstjórnarkosningar voru á síðasta ári.

Í bæjarráði þann 12. október sl. var tekið fyrir erindi íþrótta- og tómstundafulltrúa ásamt umsögn framkvæmdastjóra menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs, þar sem óskað er eftir heimild til þess að fjölga stöðugildum við sundmiðstöðina. Formaður bæjarráðs lagði þar til að þessu erindi yrði vísað til fjárhagsáætlunar 2007 og var það samþykkt af sjálfstæðismönnum í bæjarráði.
„Þessi niðurstaða þýddi að meirihluti sjálfstæðismanna í bæjarráði heimilaði ekki þennan útgjaldaauka á árinu 2006,“ segir í bókuninni.

Þar segir ennfremur: „Nú er hins vegar komið í ljós að til þessara útgjalda hafði verið stofnað þegar að þessi fundur bæjaráðs var haldinn, þar sem sjálfstæðismenn höfnuðu þeim.
Það er aðeins á forræði bæjarstjórnar eða bæjarráðs að veita slíka heimild og svo virðist sem að eftirliti hafi verið verulega ábótavant.
Því miður er að koma í ljós að það hagræði sem ætíð var talað um, að yrði með byggingu nýrrar innisundlaugar er miklu minna en ráð var fyrir gert. Sá viðbótar kostnaður sem stofnað var til á árinu 2006, án heimildar, vegna sundmiðstöðvar, mun verða varanlegur. Gert er ráð fyrir að hann verði kr. 21.500.000.- á árinu 2007 skv. svari við fyrirspurn bæjarfulltrúa A-lista…
…Það er því ljóst að sjálfstæðismenn hafa algjörlega brugðist í allri áætlunargerð við byggingu innisundlaugarinnar og þeirri skyldu sinni að sjá til þess að ekki sé verið að stofna til útgjalda og skuldbinda sveitarfélagið án heimilda,“ segir í bókuninni.

Í máli Böðvars Jónssonar, bæjarfulltrúa D-lista og formanns bæjarráðs kom fram „að það væri margt satt og rétt"  í bókun A-listans og ekki væri ástæða til að gera stórvægilegar athugasemdir við hana. Hins vegar væri rétt að benda á að þegar umrætt erindi um fjölgun stöðugilda kom til umfjöllunar bæjarráðs á sínum tíma hafi því í rauninni ekki verið hafnað. Ekki hafi það heldur verið samþykkt á þeim tímapunkti heldur vísað til næstu fjárhagsáætlunar eins og jafnan er gert með slík erindi.
Benti Böðvar á fyrri bókun meirihluta bæjarráðs þar sem segir að mikil aukning á fjölda sundgesta yrði að mæta með aukinni öryggisvörslu.

Bókunina í heild sinni má sjá í fundargerð bæjarstjórnar á www.rnb.is

 

 

Mynd: Frá opnun Vatnaveraldar í Sundmiðstöð Reykjanesbæjar.


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024