Yfir 1.500 nemendur hafa útskrifast af Háskólabrú
— Fjölmenn útskrift á tíu ára afmælisári Keilis
Keilir útskrifaði 115 nemendur við hátíðlega athöfn á Ásbrú föstudaginn 9. júní. Við athöfnina brautskráðust nemendur úr Háskólabrú, Íþróttaakademíu og Flugakademíu, auk nemenda í leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku á vegum Thompson Rivers University og Keilis. Með útskriftinni hafa nærri 250 nemendur lokið námi frá skólum Keilis á árinu og samtals 2.914 nemendur úr öllum deildum Keilis frá stofnun skólans árið 2007.
Í ræðu sinni velti Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri Keilis upp mikilvægi þess að bera virðingu fyrir skoðunum annarra, ásamt virðingu fyrir orðum, náttúrunni, samferðafólki og sjálfum sér. Hann hvatti útskriftarnemendur til að stökkva út fyrir þægindaramma sína og vera óhrædd við að gera mistök, þar sem þau eru liður í lærdómsferli þeirra. Þá hvatti hann nemendur til að halda lífi í gleðinni.
Við útskriftina var Hrafnhildur Jóhannesdóttir, stærðfræðikennari í Keili og framúrskarandi kennari ársins 2014, kvödd og þakkað fyrir framlag hennar til kennslu á Háskólabrú Keilis. Samtals hafa nú 2.914 nemendur lokið námi úr öllum deildum Keilis á tíu árum.
Mikil aukning nemenda í flugtengdu námi
Flugakademía Keilis útskrifaði 18 atvinnuflugnema og hafa þá samtals 47 atvinnuflugmenn útskrifast úr skólanum það sem af er ársins. Mikil aukning hefur verið í flugtengt nám í Keili, en tveir atvinnuflugmannsbekkir hófust í maí auk þess sem mikill fjöldi nemenda mun hefja nám við skólann í ágúst. Samtals hafa 175 einstaklingar lokið atvinnuflugmannsnámi frá upphafi. Þá útskrifuðust fimm flugvirkjar. Samtals hafa þá 24 flugvirkjar útskrifast á árinu og 46 samtals á tveimur árum. Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíunnar, flutti ávarp. Dúx var Sigurbergur Ingi Jóhannsson með 9,44 í meðaleinkunn. Kolbeinn fékk gjafabréf frá WOWair og bók frá Icelandair. Ræðu útskriftarnema flutti Pontus Willby.
Íþróttaakademía Keilis brautskráir 47 þjálfara
47 nemendur útskrifuðust sem ÍAK þjálfarar úr Íþróttaakademíu Keilis, 33 einkaþjálfarar og 14 styrktarþjálfarar. Með útskriftinni hafa yfir 600 einstaklingar lokið þjálfaranámi frá Keili. Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis flutti ávarp. Aldís Hilmarsdóttir fékk viðurkenningu fyrir bestan námsárangur í ÍAK einkaþjálfun með 9,75 í meðaleinkunn og Þorgrímur Þórarinsson fékk viðurkenningu fyrir bestan námsárangur í ÍAK einkaþjálfun með 9,01 í meðaleinkunn. Þau fengu bæði TRX bönd frá Hreysti og gjafabréf frá Under Armour. Heiðar Kristinn Rúnarsson nemandi í styrktarþjálfun flutti ræðu útskriftarnemenda fyrir hönd Íþróttaakademíu Keilis.
Leiðsögunám í ævintýraferðamennsku vinsælt hjá íslenskum og erlendum nemendum
Íþróttaakademía Keilis og Thompson Rivers University í Kanada brautskráðu 18 nemendur úr leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku. Námið hefur vakið athygli bæði meðal íslenskra og erlendra nemenda og hafa samtals 63 nemendur útskrifast á fjórum árum meðal annars frá Kanada, Noregi og Spáni, auk Íslands. Næsta haust bætast enn fleiri þjóðir í þennan hóp, þar sem meðal annars tveir nemendur frá Grænlandi og einn frá Chile munu hefja nám við skólann. Sharman Learie, umsjónarmaður TRU Adventure Studies, flutti ávarp og Erik Stevensson hlaut viðurkenningu fyrir bestan námsárangur með 8,95 í meðaleinkunn. Fékk hann gjöf frá GG sjósport.
Yfir 1.500 nemendur hafa útskrifast af Háskólabrú Keilis á tíu árum
Háskólabrú Keilis brautskráði í 27 nemendur úr tveimur deildum, þar af átta úr fjarnámi. Brautskráðir voru nemendur af Félagsvísinda- og lagadeild og Viðskipta- og hagfræðideild. Það sem af er ársins hafa því samtals útskrifast 102 nemendur úr Háskólabrú Keilis en í ágúst bætist auk þess við útskritarhópur úr Verk- og raunvísindadeild skólans. Samtals hafa 1.523 nemendur útskrifast úr Háskólabrú Keilis og var Daði Rúnar Jónsson, fimmtánhundruðasti nemandi Háskólabrúar, heiðraður með blómvendi. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp. Dúx var Eiður Ágúst Kristjánsson með 8,96 í meðaleinkunn. Fékk hann bók frá Íslandsbanka og spjaldtölvu frá Keili sem viðurkenningu fyrir námsárangur. Erna Valdís Jónsdóttir flutti ræðu útskriftarnema.