X-Grindavík: Mikil mannaskipti eftir stormasamt kjörtímabil
Kjósendur á kjörskrárstofni í Grindavík eru alls: 1.867. Þar af 920 konur og 947 karlar.
B - Listi Framsóknarfélags Grindavíkur
D - Listi sjálfstæðisflokksins í Grindavík
G - Listi Grindvíkinga
S - Listi Samfylkingarfélags Grindavíkurlistans
V - Listi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og óháðra í Grindavík.
---------------------------
Stjórnmálaafl á eigin forsendum
Listi Grindvíkinga er nýtt stjórnmálaafl í Grindavík en oddviti listans er Kristín María Birgisdóttir. Að hennar sögn hefur framboðið fengið afar góðar viðtökur sem komu í ljós strax og framboðið var kynnt snemma árs.
„Þetta hafði verið í pípunum um nokkurn tíma svo við ákváðum að kanna jarðveginn og halda kynningarfund sem var afar vel sóttur. Sömu sögu er að segja af stofnfundinum sem við héldum í mars,“ segir Kristín. Hún segir framboðið og baklandið samansett af fólki úr öllum áttum, bæði fólki með reynslu af stjórnmálastarfi sem og fólki sem hafi ekki áður haft afskipti af stjórnmálum.
-Var góður jarðvegur fyrir nýtt afl í Grindavík í ljósi þess sem á gekk á kjörtímabilinu?
„Já, ég neita því ekki en ég held stjórnmálaumhverfið á landsvísu sé þess eðlis að fólk vilji horfa í kringum sig og finna atkvæði sínu nýjan farveg. Okkur fannst því nauðsynlegt að bjóða Grindvíkingum aðra valmöguleika. En við erum alls ekki að gera út á óánægju bæjarbúa. Við viljum vera með faglega nálgun á hlutina og leggjum mikla áherslu á að haft verði samstarf og samráð við alla aðila, bæði stofnanir og bæjarbúa í þeim málefnum sem við viljum leggja fram,“ svarar Kristín.
Í málefnavinnu listans hafa félagsmálin haft mikið vægi, s.s. málefni aldraðra og fatlaðra. „Við viljum jafnframt taka til í stjórnsýslunni og staða bæjarstjóra verði auglýst. Hann verði ráðinn á faglegum forsendum og má koma úr hvaða flokki sem er. Við viljum gera félagsmálanefnd bæjarins ópólitíska. Okkur finnst ótækt að svona miklar róteringar eigi sér stað í meirihlutaskiptum í jafn viðkvæmum og mikilvægum málaflokki. Þannig að í stuttu máli sagt myndi ég segja að við værum með mjög manneskjulega stefnu. Þess utan erum við að marka okkur stefnu í öðrum málaflokkum eins og skólamálum, atvinnumálum, hafnamálum og fleiru,“ segir Kristín aðspurð um þau mál sem helst brenna á Lista Grindvíkinga.
Eins og áður segir stendur fólk úr öllum áttum að listanum og telur Kristín það honum til tekna að listinn geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir um málefni sín án þess að vera háður stefnu eða flokkslínum móðurflokks. „Þannig að við tölum eingöngu máli bæjarbúa en ekki stjórnmálaflokks á landsvísu,“ sagði Kristín.
Kristín María Birgisdóttir.
----------------------
Lofum ekki meiru en við getum staðið við
Bryndís Gunnlaugsdóttir bauð sig fram gegn sitjandi oddvita í prófkjöri Framsóknar í vor og hlaut afar gott brautargengi. Hún hefur ekki verið í framlínunni áður en er alls ekki ókunn stjórnmálastarfi. Hún var t.d. kosningastjóri fyrir flokkinn í Suðurkjördæmi í Alþingiskosningunum 2007. Hún segir það hafa verið góðan og lærdómsríkan skóla sem hafi leitt hana á ákveðnar krossgötur hvort hún vildi halda áfram að starfa í pólitík eða ekki. Hún komst að því að hún vildi hafa áhrif og mánuði síðar var hún orðin formaður Sambands ungra framsóknarmanna.
„Ég var á báðum áttum en fann fyrir miklum þrýstingi um að koma heim. Mér finnst bara frábært að gefa til baka í bæjarfélagið sem ól mig upp,“ segir Bryndís aðspurð um ástæðu þess að hún ákvað að fara í framboð. Hún segir kröfuna um endurnýjum einnig hafa haft sterk áhrif.
Bryndís telur að það sem á gekk í samstarfi flokkanna í Grindavík á kjörtímabilinu sé ekki mikill áhrifavaldur á kosningarnar sjálfar því fólk hafi afgreitt þau mál í prófkjörunum í vor. „Mér finnst fólk líta á það þannig núna í kosningabaráttunni að það sem á gekk sé búið og verði ekki breytt. Við erum öll að starfa heiðarlega og allir flokkarnir hér ætla t.d. að halda sameiginlega fjölskylduhátíð til að sýna á táknrænan hátt að við getum starfað saman. Ég held að við munum öll draga lærdóm af þessu þannig að þeir sem taka við í nýrri bæjarstjórn viti hvað þeir eigi ekki að gera. Við höfum öll lært okkar lexíu,“ segir Bryndís.
Aðspurð um stemminguna í kosningabaráttunni í ljósi þeirra fjölda framboða sem berjast um hylli kjósenda segist Bryndís finna góðan meðbyr. „Við opnuðum kosningaskrifstofuna á uppstigningardag þar sem um 200 manns mættu. Síðan gengum við í hús og okkur fannst öllum mótttökurnar vera góðar. Það hefur reyndar einkennt kosningabaráttuna hér í Grindavík að hún fer yfirleitt hægt af stað og er mjög kröftug síðustu dagana fyrir kosningar. Það er mjög erfitt að lesa hvernig þetta liggur núna en við erum harðákveðin í að halda okkar hlut og helst bæta aðeins við.“
-Hvað leggið þið upp með í þessa kosningabaráttu?
„Við fórum í gegnum mikla málefnavinnu, héldum opna fundi og hittum fjölda fólks. Við lögðum upp með að lofa ekki meiru en við gætum staðið við. Fjögur mál standa upp úr sem við leggjum áherslu á. Í fyrsta lagi er það trygg fjármálastjórn og bætt stjórnsýsla. Það gengur ekki til lengdar að reka bæjarfélag með tapi. Svo viljum við bygga upp Festi sem er hjartans mál flestra bæjarbúa. Við viljum líka koma upp aðstöðu fyrir félagsstarf eldri borgara og í fjórða lagi viljum við byggja upp hafnarsvæðið sem ferðamannasvæði. Höfnin getur haft mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og fyrirtækin í kring eru farin að byggja upp starfsemi með hliðsjón af því, t.d. kaffihúsið Bryggjan og Stakkavík sem hefur komið upp aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum. Við viljum styðja við þetta.“
Miklar sviptingar hafa verið í pólitíkinni í Grindavík á kjörtímabilinu. Eigi færri en fjórir meirihlutar hafa verið myndaðir í bæjarstjórn og var mörgum orðið nóg um hringlanda-háttinn. Það birtist m.a. í því að margt nýtt fólk kemur nú til skjalanna á framboðslistum gömlu flokkanna auk þess sem nýtt, óháð framboð býður nú fram.
Bryndís Gunnlaugsdóttir.
--------------------------------------
Fólk leysi málin án þess að skella hurðum
Páll Valur Björnsson skipar fyrsta sætið á lista Samfylkingar í Grindavík. Hann var inntur eftir því hvernig kosningastemmningin væri í bæjarfélaginu með hliðsjón af því sem á undan er gengið.
„Ég upplifi að fólk er nokkuð leitt á pólitík. Á ferðum mínum um bæinn hefur maður fundið að fólk er svekkt yfir því hvernig þetta hefur verið á kjörtímabilinu. Þetta var oft æði farsakennt og gekk mikið á,“ svarar Páll Valur. Þrátt fyrir að stutt sé til kosninga er rólegt yfir hlutunum, að sögn Páls. Það kunni að breytast síðustu dagana fyrir kosningar enda fimm listar sem bjóða fram í Grindavík og 2,4% bæjarbúa í framboði.
„Við leggjum upp með traust, heiðarleika, virðingu og að gera stjórnmálin aðeins heilbrigðari. Síðasta kjörtímabil fór allt í háaloft, fólk átti mjög erfitt með að vinna saman og á milli sumra var persónulegur núningur. Þetta var orðið fullmikið og fór illa í bæjarbúa sem vilja ekki sjá svona því við búum í annars góðu bæjarfélagi. Þess vegna viljum við breyta stjórnmálunum aðeins. Við í Samfylkingunni erum með ungt fólk og góða samsetningu á listanum. Það hefur tekist vel til með listann og allir eru samstíga. Við erum jafnaðarfólk og trúum á jafnaðarhugsjónina. Við viljum miklu meiri samvinnu í bæjarstjórn og fólk leysi málin án þess að skella hurðum,“ segir Páll Valur.
Hann segir brýnasta verkefnið framundan að rétta við rekstur bæjarins, sem hafi verið rekinn með um 140 milljóna króna halla á síðasta ári og stefni í 290 milljónir á þessu ári.
„Það liggur ljóst fyrir að við þurfum að rétta þennan halla. Það þýðir að skera þarf niður og endurskipuleggja rekstur bæjarins og stjórnsýslu,“ segir Páll. Hann telur að fjármálin geti orðið eitt af stóru málunum í komandi kjörtímabili og þau verði hægt að leysa með víðtækri og þverpólitískri samvinnu.
Aðspurður segir Páll Valur erfitt að ráða í stöðuna í Grindavík þar sem tvö ný framboð hafi komið fram. Hann telur að enn sé fjöldi kjósenda óákveðinn. Því stefni í spennandi kosningar í Grindavík. „Við viljum auðvitað halda okkar atkvæðamagni og helst gera betur. En þetta verður örugglega nokkuð tvísýnt.“
Páll Valur Björnsson
--------------------------------
„Erum með mikla reynslu“
Það hefur verið frekar rólegt yfir þessu en reyndar hefur kosningarbaráttan hér í Grindavík verið fremur stutt í síðustu tveimur eða þremur kosningum. Menn hafa ekkert verið með nein læti. Til marks um það ætlum við að taka okkur helgarleyfi um hvítasunnuna og mér skilst að flestir hinna flokkanna geri það líka. Það er bara komið sumar, fólk er á ferðalögum með fjölskylduna og við erum bara með sól í hjarta hér í Vinstri grænum og óháðum,“ segir Garðar Páll Vignisson, efsti maður á lista Vinstri grænna í Grindavík, aðspurður um stemmninguna í aðdraganda kosninganna.
Vinstri grænir hafa ekki áður verið með framboð í Grindavík. Garðar Páll var inntur eftir því hvernig hljómgrunnurinn væri hjá bæjarbúum. „Hann er mjög góður. Ég er ánægður með viðtökurnar og maður fær víða klapp á bakið. En svo eru líka margir feimnir við að gefa sig upp sem Vinstri græna, sem er líklega sá flokkur sem menn vilja síst kenna sig við, alla vega í sjávarútvegi. Við erum hins vegar nokkuð jákvæð gagnvart sjávarútvegsfyrirtækjunum og almennt séð erum við Grindvíkingar það. Þetta eru stór og öflug fyrirtæki sem verða það vonandi áfram.“
-Eru þá Vinstri græn í Grindavík ekkert hrifin af fyrningaleiðinni?
„Við skulum orða það þannig að hjá pólitíkusum og sjávarútvegsfyrirtækjunum í Grindavík er bara eitt markmið og það er að tryggja að kvótinn verði áfram í Grindavík. Alveg sama hvernig, bara að kvótinn verði áfram hér í Grindavík.“
-Hvað leggið þig annars upp með í þessa kosningabaráttu?
„Við viljum t.d. halda okkur við sömu þjónustudagskrá og er í dag. Við viljum ekki hækka hana heldur nýta til jöfnunar. Við ætlum að framkvæma. Við erum ekki svo bjartsýn að halda að peningar detti af himnum ofan heldur viljum við nýta þann sjóð sem bæjarfélagið á í stað þess að taka lán. Eins og flestir flokkar viljum við helst byrja á Festi en það er ekki stjórnmálafólki í Grindavík til hróss að láta húsið fara svona. Svo höfum við mikinn áhuga á að láta fjarlægja möstrin. Þetta eru hernaðarmannvirki og þau eru fyrir íbúabyggð,“
-Hvað ætla VG að ná mörgum mönnnun inn í bæjarstjórn?
„Okkur langar í tvo en það eru fleiri um hituna en við. Öll framboðin eru með mjög frambærilegt fólk. En við leggjum það á vogaskálarnar að við erum með miklu meiri reynslu, bæði lífsreynslu og stjórnmálareynslu. Við erum með breiðan hóp og t.d. eru tveir eldri borgarar á listanum okkar. Vinstri grænir ætla að leggja áherslu á málefni eldri borgara.
Garðar Páll Vignisson.
--------------------------------
Vont ef stöðugleikann vantar
Stemmningin er tiltölulega róleg og engin læti. Mér sýnist þetta vera á svipuðum nótum hjá öllum,“ segir Guðmundur Pálsson, oddviti sjálfstæðismanna í Grindavík og bæjarfulltrúi. Hann tekur undir að á köflum farsakennd bæjarpólitíkin í Grindavík kunni að hafa einhver áhrif á kjósendur. Það sé aldrei gott ef stöðugleika vanti en sjálfstæðismenn ætli sér að vinna af heilindum.
„Það var þó nokkur endurnýjun á listanum okkar. Í öðru sæti erum við t.d. með Vilhjálm Árnason, ungan og öflugan strák, sem ekki hefur verið í framboði áður. Það stefnir auk þess í talsverð mannaskipti í bæjarstjórn þar sem allir byrja með hreint borð sem ég tel vera gott mál eftir þessi læti sem hafa verið,“ segir Guðmundur sem telur endurnýjun af hinu góða í bland við reynslu.
Aðspurður um helstu áherslumál D-listans segir hann brýnast að ná tökum á fjármálum bæjarfélagsins. „Við eigum vissulega sjóði en það hefur verið gengið á þá og það þarf að stoppa í það gat. Það hefur verið of mikill halli á bæjarsjóði. Upphaflega var talað um að nota vextina í framkvæmdir en þeir hafa verið notaðir í rekstur og meira til. Það gengur ekki upp. Sjóðirnar eru fljótir að tæmast ef ekki er tekið á þessu. Það þarf að fara yfir allt sviðið og það tekur kjörtímabilið að snúa þessu til baka, það gerist ekki á einni nóttu. Mér sýnist flestir vera á þeirri bylgjulengd. Allir vita að taka þarf á þessu,“ segir Guðmundur sem segir lykilatriði að ekki verði gengið á höfuðstólinn en vextirnir notaðir til framkvæmda.
„En það þýðir samt ekki að við ætlum ekki í neinar framkvæmdir. Við verðum auðvitað að halda áfram uppbyggingu samfélagsins. Það þarf einnig að verja það sem fyrir er eins og sjávarútveginn. Ef fyrningarleiðin verður farin þýðir það mikinn skell fyrir bæjarfélagið og við viljum berast á móti því. Hér eru blómleg sjávarútvegsfyrirtæki og mikill kvóti. Síðan horfum við til þess að nýta þá orku sem hér er í túnfætinum til uppbyggingar. Þar eru framtíðarmöguleikarnir okkar.“
Aðspurður um væntingar segir Guðmundur erfitt að ráða í stöðuna þar sem fylgið dreifist á milli fimm flokka. Baráttan um atvæðin sé því hörð og hugsanlega miklar sviptingar framundan á spennandi kosninganótt í Grindavík.
Guðmundur Pálsson
------------------------------