WOW air kaupir tvær nýjar Airbus A321 flugvélar
-verða notaðar í Norður-Ameríkuflug WOW air. Kosta 15 milljarða hvor vél.
Flugfélagið WOW air hefur fest kaup á tveimur glænýjum Airbus A321-211 flugvélum og verða þær afhentar félaginu um miðjan mars. Flugvélarnar verða notaðar í Norður-Ameríkuflug WOW air sem hefst 27. mars til Boston en flugfélagið mun svo einnig hefja flug til Washington, D.C. 8. maí.
Flogið verður fimm sinnum í viku til Washington, D.C. og sex sinnum í viku til Boston. Listaverð á slíkum flugvélum frá Airbus eru um 15 milljarðar íslenskra króna hver flugvél.
„Þetta eru tímamót í sögu WOW air og það er sannarlega ánægjulegt að geta boðið farþegum okkar upp á nýjustu flugvélarnar á Íslandi. Nýju Airbus A321 flugvélarnar eru mun sparneytnari og umhverfisvænni heldur en t.d. Boeing 757 vélar og mun þetta gera okkur kleyft að bjóða enn lægri fargjöld í framtíðinni“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air.
Flugvélarnar eru af gerðinni Airbus A321-211 og eru þær eru sérútbúnar með auka eldsneytistönkum. Þessar nýju vélar eyða mun minna eldnseyti eða 25% minna en t.d. Boeing 757, þær eru hljóðlátari og umhverfisvænni með minni CO2 útblástur. Jafnframt þýðir öflugur og háþróaður tæknibúnaður Airbus-vélanna minni viðhaldskostnað. Farþegarýmið í A321 er einstaklega breitt og rúmgott, sem þýðir að hvert sæti er u.þ.b. tommu breiðara en í Boeing 757. Í A321 vélunum hjá WOW air verða sæti fyrir 200 farþega en þessi tegund flugvéla getur þó rúmað sæti fyrir allt að 230 farþega. Því verður rýmra fótapláss fyrir farþega.
„Airbus A321 er mjög vinsælar flugvélar sem munu passa óaðfinnanlega og vera góð viðbót við Airbus flugflota WOW air. Flugvélarnar munu gera WOW air kleyft að vaxa enn frekar og ná aukinni markaðhlutdeild á mikilvægum flugleiðum með nýjustu, skilvirkustu og afkastamestu vélunum sem til eru í heiminum“ segir John Leahy, framkvæmdastjóri hjá Airbus S.A.S. Corporate.
„Þetta er risastór áfangi í sögu WOW air og í flugsögu Íslands. Þessar flugvélar koma „beint úr kassanum“ og eru mun sparneytnari og umhverfisvænni heldur en eldri kynslóðir sem mun gera okku kleyft að halda áfram að bjóða lægstu verðin, nýjustu flugvélarnar, bestu stundvísina og að sjálfsögðu breiðasta brosið,“ sagði Skúli Mogensen forstjóri og eigandi félagsins.