Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Wilson Muuga: Engin afsláttur á lögum, segir samgönguráðherra
Miðvikudagur 31. janúar 2007 kl. 16:33

Wilson Muuga: Engin afsláttur á lögum, segir samgönguráðherra

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, segir eigendur og tryggingafélög ekki mega víkja sér undan ábyrgð af hreinsun flaksins af Wilson Muuga. Það væri sameinginleg niðurstaða umhverfis- og samgönguráðuneytis að lög kvæðu skýrt á um ábyrgð eigenda skipa og enginn afsláttur yrði gefinn þar á. Þetta kom fram í umræðu um málið á Alþingi í dag.

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, vakti máls á þeirri deilu sem upp er komin í tengslum við strandið en eigendur skipsins hafa neitað að greiða meira en 75 milljónir króna fyrir hreinsun á strandstað.
Taldi Björgvin að skýra þyrfti ábyrgð skipafyrirtækja og tryggingafélaga þeirra að þessu leyti í lögum.

Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, sagði það skýrt í lögum um verndun hafs og stranda að eigendum bæri að fjarlægja skip af strandstað innan hálfs árs frá strandi. Þá hvíldi einnig siðferðileg og samfélagsleg skylda á skipafélögum að fjarlægja strönduð skip í þeirra eigu.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, tók í sama streng og benti á að útgerð Vikartinds, sem strandaði undan suðurströnd landsins árið 1997, hefði kostað aðgerðir þar. Það væri sameiginleg niðurstaða umhverfis- og samgönguráðuneytis að lög kvæðu skýrt á um ábyrgð eigenda skipa. Enginn afsláttur yrði gefinn þar á.

Jón Gunnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði hversu lengi ætti að þræta við eigendur Wilson Muuga um að flytja skipið af strandstað. Benti hann á að málaferli gætu tekið mánuði eða ár og spurði hann hvort stjórnvöld myndu fylgja lögunum eftir, fjarlægja skipið og í kjölfarið deila um það fyrir dómstólum hver ætti að bera kostnaðinn.

Sturla Böðvarsson sakaði stjórnarandstöðuna um að tala glannalega um málið og ítrekaði að enginn afsláttur yrði gefinn á lögum.

Mynd: Wilson Muuga í Hvalsnesfjöru. VF-mynd: Ellert Grétarsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024