VT-verktakar, tilbúnir fyrir framtíðina
Nýlega var stofna verktakafyrirtækið VT-verktakar á Suðurnesjum. Fyrirtækið samanstendur af 38 einstaklingum og fyrirtækjum sem ætla í framtíðinni að hasla sér völl við framkvæmdir stærri verkefna en verktakarnir í smærri einingum hafa ráðið við áður. Anton Jónsson er framkvæmdastjóri félagsins og einn þriggja stjórnamanna. „Við erum ekki með neitt starfslið, heldur öflugann hóp verktaka og þjónustuaðila í öllum greinum. Við ætlum að fylgjast vel með þróun mála inni á varnasvæðinu og vera tilbúnir þegar einokuninn fellur endanlega niður árið 2004. Ef Suðurnesjamenn skoða þetta ekki sameiginlega þá fara verkefnin framhjá okkur," segir Anton. Fyritækið er ekki byggt upp í kringum ákveðna klíku heldur er það opið öllum og vill Anton sjá sem flesta saman í hinu nýja félagi til að styrkja það. „Við erum ekki komnir með nein verkefni ennþá, félagið er tiltölulega nýstofnað og við erum að horfa til framtíðar. En ef svo færi að einhver stórframkvæmd færi í gang á Suðurnesjum, sem einstaka verktakar réðu ekki við sökum smæðar sinnar, þá erum við tilbúnir til að skoða slík verkefni," sagði Anton Jónsson að lokum.