VSFK 85 ára í dag
- Konur og fólk af erlendum uppruna meirihluti félagsmanna
Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis, VSFK, fagnar 85 ára afmæli 28. desember. Þann dag árið 1932 komu 19 verkamenn saman til fundar í samkomuhúsinu Skildi, með það fyrir augum að stofna verkalýðsfélag.
Alls hafa fimm verkalýðsfélög sameinast VSFK. Í júlí 1974 sameinuðust Verkalýðsfélag Hafnahrepps og Verkalýðsfélag Vatnsleysustrandarhrepps félaginu. Verkakvennafélag Keflavíkur og Njarðvíkur og VSFK sameinuðust árið 1989 og þann 1. janúar 1998 sameinuðust VSFK og Verkalýðs- og sjómannafélag Gerðahrepps. Að lokum sameinaðist Bifreiðafélagið Keilir VSFK þann 5. febrúar 1999.
Félagið gætir hagsmuna verkafólks og sjómanna í Garði, Reykjanesbæ og Vogum. VSFK á aðild bæði að Starfsgreinasambandi Íslands og Sjómannasambandinu. Í gegnum aðildina að þessum landssamböndum, er félagið eitt af aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands.
Í þau 85 ár sem félagið hefur starfað hafa aðeins verið fjórir formenn í félaginu. Þeir Guðni Guðleifsson, Ragnar Guðleifsson, Karl Steinar Guðnason og Kristján Gunnarsson.
Ekki verða veisluhöld hjá félaginu á þessum tímamótum. Þeirra var þó minnst með veglegu framlagi í Velferðarsjóð Suðurnesja sem notaði fjárhæðina til að styðja við þá sem minnst mega sín á Suðurnesjum fyrir jólin.
Kristján Gunnarsson, formaður VSFK, sagði að félaginu vegni vel á þessum tímamótum. Í dag séu félagsmenn VSFK yfir 5400 talsins. 54% þeirra séu konur og 52% félagsmanna eru af erlendum uppruna.
Kristján segist horfa bjartsýnn fram á veginn. Atvinnuleysi á svæðinu sé í sögulegu lágmarki og atvinnulífið á fullri ferð. Þá sé framundan kjarasamningagerð hjá félaginu.