Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vöxturinn í fluginu - flugstöðin lang stærsti vinnustaður á Suðurnesjum
Fimmtudagur 11. október 2018 kl. 06:00

Vöxturinn í fluginu - flugstöðin lang stærsti vinnustaður á Suðurnesjum

Mögnuð þróun á síðustu árum - segir Þröstur V. Söring, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Keflavíkurflugvallar

Vöxtur í starfsemi Keflavíkurflugvallar hefur verið hraður síðustu ár og starfsemin tekið miklum breytingum síðan Varnarliðið fór með manni og mús fyrir rétt rúmum áratug síðan. Þessi vöxtur hefur haft gríðarleg áhrif á atvinnulíf á Suðurnesjum en flugstöðin er langstærsti vinnustaðurinn á svæðinu og einn sá stærsti á landinu. Skömmu eftir brottför Varnarliðsins kom bankahrun en tveimur, þremur árum síðar fóru hlutirnir að þróast í betri átt, þökk sé áhuga útlendinga á landinu.

Ótrúleg farþegafjölgun
Fyrir rúmum áratug voru farþegar á Keflavíkurflugvelli innan við tvær milljónir á ári en verða í ár um tíu milljónir. Þegar sjónvarpsmenn Víkurfrétta voru á Keflavíkurflugvelli um miðja vikuna fóru 34.000 farþegar um flugstöðina þann daginn. Flugtök og lendingar voru 178 og fóru í allt að 215 í sumar en á slíkum degi fara um 42.000 farþegar um flugstöðina á einum sólarhring.
Það þarf fjöldann allan af starfsfólki til að starfrækja flugvöll allan sólarhringinn, alla daga ársins og tækjabúnaðurinn er margskonar. Til dæmis eru 90 hjólastólar og allskonar farartæki á ferðinni til að auðvelda flutninga um Keflavíkurflugvöll en daglega berast 150 slíkar þjónustubeiðnir, um 50 þúsund á ári. Já, tölurnar eru stórar í flugstöðinni. Sem dæmi þá er dælt um tveimur milljónum lítra af eldsneyti á flugvélar á flugvellinum á hverjum degi en það rennur í leiðslum frá Helguvík upp á Keflavíkurflugvöll.
Við hittum Þröst V. Söring, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Keflavíkurflugvallar, og spyrjum hann aðeins út í þróunina en Isavia rekur til dæmis björgunar- og slökkviþjónustu og vetrarþjónustu sem var á tímum Varnarliðsins í höndum Bandaríkjamanna.



Stór biti þegar herinn fór

- Það hefur verið stór biti á sínum tíma fyrir íslensk stjórnvöld að taka við Keflavíkurflugvelli?
„Það var erfitt fyrir stjórnvöld að taka við rekstri þessa flugvallar þó svo þau hafi á sínum tíma verið með reynslumikið starfsfólk sem hafði unnið á vellinum. Það fylgdi yfirtökunni að taka fjárhagslegan rekstur og standa undir honum. Þá voru farþegar um flugvöllinn undir tveimur milljónum á ári og tekjurnar í samræmi við það. Lendingar örfáar og fáar flugvélar. Hér var eitt ráðandi flugfélag sem var ekki með marga áfangastaði þannig að menn þurftu að gera mikið úr litlu á þessum tíma og í talsvert langan tíma. Við fórum ekki að sjá almennilegan uppgang á Keflavíkurflugvelli fyrr en árið 2012.
Árið 2008 var hins vegar komið að því að það þurfti að endurnýja talsvert af tækjabúnaði flugvallarins. Metnaðarfull áætlun var gerð um endurnýjun tækja, farið af stað í það verkefni og gert eins og hægt var – því það einfaldlega varð til að halda flugvellinum opnum og gangandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Boltinn fór að rúlla
Á árinu 2013 fór boltinn hins vegar að rúlla þó nokkuð hratt. Þá bættist við stórt, íslenskt flugfélag, WOW air, sem hefur vaxið hratt síðan. Icelandair, sem hafði haft Keflavíkurflugvöll sem heimavöll í langan tíma, fór einnig að vaxa mjög hratt og það komu nýir flugrekendur inn eins og Wizz, easyJet­ og Norwegian. Farþegafjöldinn fór frá árinu 2013 úr þremur milljónum farþega í tíu milljónir á þessu ári. Það varð til þess að við gátum farið í innviðafjárfestingu en hér var ákveðin uppsöfnuð þörf á endurnýjun innviða. Þar tala ég um endurnýjun á flugbrautum, malbikun og endurnýjun á rafdreifikerfi, endurnýjun á ljósakerfi. Það voru milljarðaframkvæmdir sem áttu sér stað á þessum tíma. Þetta var uppsöfnuð fjárfestingarþörf.
Síðan kemur uppbygging sem er annar hlutur. Það sem við höfum gert í rekstri flugvallarins frá árinu 2012 er að endurnýja tækjakost mjög mikið. Þið sjáið að hér inni á gólfi á verkstæðinu eru nánast öll tæki yngri en fimm ára. Stóru sameykin (snjóplógar og -sópar) sem við erum með í snjónum voru sjö lengi vel en í vetur verðum við með ellefu slík tæki. Við höfum endurnýjað slökkvibíla flugvallarins og erum í dag með fjóra slökkvibíla sem eru árgerð 2013, öll ámoksturstæki hafa verið endurnýjuð á fimm árum og við getum sagt að laus tækjabúnaður hafi verið endurnýjaður til reksturs flugvallarins fyrir eina til tvær milljónir evra á ári.
Við þetta bætist að það hefur orðið til ný starfsemi sem er farþegaakstur. Sú eining var ekki til og í dag erum við orðið stærsta rútufyrirtæki landsins, sé horft til fjölda fluttra farþega, en í ár flytjum við fjórar milljónir farþega í rútum innan flugvallarins. Við eigum sextán stórar rútur. Þetta eru þriggja metra breiðir bílar og tveir af þeim eru liðvagnar. Þá erum við með þrjú sérbyggð tæki til að flytja farþega með skerta hreyfigetu. Þessi starfseining er með fimmtíu starfsmenn og var ekki til í okkar rekstri fyrir nokkrum árum síðan“.



700 útköll hjá vettvangsliðum

Flugvallarþjónustan á Keflavíkurflugvelli samanstendur af þremur þáttum. Það er farþegaakstur, björgunar- og slökkviþjónusta og svo vetrarþjónusta ásamt tilfallandi viðhaldi. Í heildina eru þetta um 150 starfsmenn. Fimmtíu af þeim eru í farþegaakstri en hinir í björgunar- og slökkviþjónustu og vetrarþjónustu og hafa fengið þjálfun í hvoru tveggja.
„Vetrarþjónustan er fyrirbyggjandi til að koma í veg fyrir slys og svo erum við með björgunar- og slökkviþjónustu ef svo illa skyldi fara að það yrði slys en sem betur fer hefur ekki reynt á það. Okkar starfsmenn æfa sig í slíkri þjónustu í um 100 stundir á hverju ári og sumir upp í 150 stundir. Við erum alltaf með sex starfsmenn á vakt í viðbragði í slökkviþjónustu en þeir eru fleiri á vaktinni,“ segir Þröstur.
Isavia hefur tekið upp nýja þjónustu í flugstöðinni sem er vettvangsliðar (e. First Responder). Þeir hafa fengið sérstaka þjálfun sem er hluti af þjálfun þeirra sem eru í sjúkraflutningum. „Þetta hefur verið prufuverkefni frá því síðasta haust og þetta verkefni hefur verið keyrt síðan þá. Það sem við höfum séð er að þörfin var mjög mikil og mér sýnist að það stefni í að við fáum 700 útköll á þessu ári og við áttum alls ekki von á að þetta væri svona mikið. Þetta er fyrst og fremst þjónusta en ekki er  verið að stíga inn í hlutverk sjúkraflutningamanna. Það er t.a.m. óþarfi að kalla til sjúkrabíl ef einhver þarf bara að fá vatnsflösku eða ferskt loft og smá athygli og aðhlynningu. Stundum getur alvarlegt útkall komið upp, eins og hjartaáfall, og þá eru vettvangsliðarnir til staðar þar til sjúkraflutningamenn mæta. Það getur verið lífsspursmál í einhverjum tilvikum og á sama tíma veita þeir sjúkraflutningamönnum upplýsingar um líðan sjúklingsins á meðan þeir eru á leiðinni, þannig að þeir eru tilbúnari þegar þeir koma á staðinn“.



Vinsæll vinnustaður

- Hvernig hefur ykkur gengið að manna öll þessi störf í þessum mikla uppgangi sem hefur verið síðustu ár?
„Okkur hefur gengið það mjög vel. Þetta er svo skemmtilegt. Þetta er svo fjölbreytt starfsemi hér fyrir þá sem vilja vera í fjöri, hafa gaman af svona tækjum og tólum, vilja spreyta sig og fá tækifæri til starfsþróunar. Fyrirtækið veitir almennum starfsmanni í flugvallarþjónustu um 500 klukkustundir í þjálfun í grunnnámi sínu. Við erum vinsæll vinnuveitandi. Ég sé það á atvinnuumsóknum sem eru miklu fleiri en þau störf sem eru í boði“.


 

Keflavíkurflugvöllur 2018