Vorverk í vetrarkulda
Nýstingskaldi er nú úti en Óskar Ívarsson lætur það ekki á sig fá og var hann að hreinsa til drasl eftir bæjarbúa í Skrúðgarðinum í Njarðvík í morgun. Óskar fann ekki mikið fyrir kuldanum enda klæddur góðum kuldagalla og tilheyrandi. Óskar segir Suðurnesjamenn vera dálitla sóða og segir hann alltaf eitthvað rusl liggja á víðavangi í bæjarfélaginu. Hann fór til Kanarí fyrir stuttu og bendir á að Suðurnesjamenn ættu að taka bæjarbúa þar til fyrirmyndar þar sem það vottaði ekki fyrir rusli í útlandinu. Óskar hlakkar til sumarsins og segir hann vinnuna vera skemmtilegri í góðu veðri.