Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 3. maí 2000 kl. 17:00

Vortónleikar Karlakórs Keflavíkur

Þegar vora tekur fara söngfuglar á kreik. Svo er einnig með Karlakór Keflavíkur. Komið er að vortónleikum kórsins og verða þeir haldnir á fjórum stöðum á næstu vikum. Fyrstu tónleikarnir verða í safnaðarheimilinu í Sandgerði 8. maí nk. og síðan verða þrennir tónleikar í Ytri Njarðvíkurkirkju; fimmtudaginn 11. maí, þriðjudaginn 16. og fimmtudaginn 18. maí. Kórinn heldur svo tónleika í Grindavíkurkirkju sunnudaginn 14. maí en allir tónleikarnir hefjast kl. 20:30. Karlakórinn lætur ekki staðar numið og verður einnig með tónleika í Ými, húsi Karlakórs Reykjavíkur, sunnudaginn 21. maí kl. 17. Efnisskráin er fjölbreytt og samanstendur af þekktum íslenskum og erlendum lögum. Má þar nefna hefðbundin karlakóralög, óperukóra og dægurlög. Stjórnandi kórsins er Vilberg Viggósson en hann hefur stjórnað honum undanfarin 7 ár. Eiginkona hans, Ágota Joó, hefur verið undirleikari hans jafn lengi. Annan undirleik annast Ásgeir Gunnarsson og Konráð Fjelsted á harmonikku og Gunnar Ingi Guðmundsson á bassa. Einsöngvarar með kórnum eru Steinn Erlingsson baritón og Guðbjörn Guðbjörnsson tenór, sem einnig hefur raddæft kórinn í vetur. Í lok maí fer kórinn í söngferð til Færeyja, þar sem tekið verður þátt í kóramóti í Þórshöfn og dagskrá sjómannadagsins í Klakksvík. Einnig verða sjálfstæðir tónleikar í Þórshöfn og Miðvogi, vinabæ Reykjanesbæjar. Með söngkveðjum, Karlakór Keflavíkur
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024