Vorboðar mættir á tjaldstæðin á Suðurnesjum
Síðustu tvær helgar hefur mátt sjá vorboða á tjaldstæðunum í Sandgerði og á Garðskaga. Vorboðarnir eru húsbílafólkið sem hefur tekið fram bílakost sinn og fer í helgarferðir á tjaldstæðin sem eru opin fyrir þessi farartæki.
Meðfylgjandi mynd er tekin í Sandgerði um liðna helgi af tveimur húsbílum á tjaldstæði bæjarins. Fyrir rúmri viku voru um tveir tugir húsbíla á Garðskaga en húsbílafólk fundaði í Garðinum þá helgi og margir notuðu tækifærið og gistu á Garðskaga þá helgi. Einnig voru húsbílar þar um nýliðna helgi.
Nú er rétt um mánuður þar til allar helstu geymslur fyrir húsbíla, hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna verða tæmdar fyrir sumarið og í framhaldi af því hefst sumarvertíðin.
Myndin er af vefnum 245.is