Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Þriðjudagur 15. janúar 2002 kl. 20:31

Vopnaður varnarliðsmaður á slysamóttöku í Keflavík

Varnarliðsmaður, vopnaður byssu, fylgdi starfsfélaga sínum á slysamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í nótt í kjölfar alvarlegs umferðarslyss á Grindavíkurvegi. Skotvopnið vakti athygli og hneykslan aðila sem erindi átti á stofnunina í nótt.„Ég geri mér grein fyrir að í nótt varð alvarlegt slys og leita þurfti hjálpar á sjúkrahúsinu. Þessir menn eiga hins vegar að sýna okkur, sem ekki erum vanir vopnaburði opinberlega, þá virðingu að vera ekki að flagga skotvopnum. Þau vekja ótta og eru óþörf,“ sagði aðili á Suðurnesjum í samtali við fréttavef Víkurfrétta undir kvöld.
Jóhann Einvarðsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, staðfesti að í nótt hafi komið vopnaður varnarliðsmaður með manni sem hafði slasast lítillega í umferðarslysi á Grindavíkurvegi. Vakthafandi læknir, Konráð Lúðvíksson, hafi staðfest þetta eftir fyrirspurn blaðamanns. Skotvopnið hafi verið í belti og ekki áberandi. „Það olli lækninum ekki áhyggjum,“ sagði Jóhann í samtali við Víkurfréttir.
Varnarliðið hafði afnot af líkhúsi sjúkrahússins í nótt og sagðist Jóhann ekki vita til þess að þar hafi verið vopnaðir menn á ferli. „Ég átti fund með yfirmönnum allra deilda í dag og enginn þeirra hafði orð á því við mig“.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024