Vöntun á læknum erfiðasta viðfangsefnið
Fjárframlög ekki í takti við fjölgun íbúa og ferðamanna
Fjárframlög ríkisins til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hafa ekki tekið nægilega mikið mið af fjölgun íbúa og ferðamanna á svæðinu undanfarin ár, að mati Halldórs Jónssonar, forstjóra stofnunarinnar. „Íbúafjölgun á Suðurnesjum var 6,6 prósent á síðasta ári en í fjárlögum er að jafnaði gert ráð fyrir um eins prósenta aukningu. Ef við lítum aðeins á íbúafjölgunina þá veldur hún ein og sér aukinni eftirspurn eftir þjónustu. Álagið hefur einnig aukist mikið vegna ferðamanna,“ segir hann.
Vegna verulega aukinnar starfsemi á síðasta ári stefndi í allt að 70 milljón króna halla hjá HSS. Heilbrigðisráðherra og fjárlaganefnd sýndu þessari stöðu skilning og samþykktu að veita stofnuninni aukið fé í lok ársins þannig að rekstrarniðurstaða ársins varð jákvæð á árinu 2016. Fjárhagsstaða stofnunarinnar á árslok var því góð. Í forsendum fjárlaga þessa árs er reiknað með 1 prósenta raunvexti í starfseminni frá fjárlögum síðasta árs. Auk þess er veitt tímabundið framlag til að styrkja reksturinn vegna fjölgunar íbúa og ferðamanna að fjárhæð 50 milljónir króna. Þessar viðbætur, frá fjárlögum síðasta árs, duga ekki vel til að viðhalda óbreyttri starfsemi. „Það er áfram fyrirsjáanleg aukning í þjónustuþörfinni, sem nauðsynlegt er að mæta. Til þess þyrftum við 100 til 105 milljónir í viðbót.“ Halldór segir þó ekki standa til að grípa til neikvæðra ráðstafanna heldur að reyna áfram að tryggja nægt fé til starfseminnar og gera ráðuneytinu og Alþingi enn betur grein fyrir stöðunni vegna fjölgunar íbúa og ferðamanna.
Halldór Jónsson, forstjóri HSS. VF-mynd/dagnyhulda
Vöntun á starfsfólki
Halldór segir stöðuna í heilbrigðiskerfinu öllu hér á landi vera þannig að erfitt sé að ráða starfsfólk, sérstaklega ákveðið fagfólk. „En það verður ekki bara leyst með meiri peningum. Við getum ekki veitt þjónustu nema hafa starfsfólk og við finnum fyrir því að erfitt er að ráða starfsfólk, sérstaklega lækna og nýjir kjarasamningar hafa ekki leyst það, þó að þeir hafi á einhverjum stöðum breytt eitthverju.“ Halldór bendir á að þrátt fyrir allt þá hafi jafnvel gengið betur að fá lækna til starfa á HSS en víða annars staðar á landsbyggðinni. „Hjá sumum stofnunum er jafnvel enginn læknir fastráðinn heldur eru verktakasamningar gerðir um þjónustuna.“
Aukin sérhæfing
Með aukinni sérhæfingu heilbrigðisstarfsfólks undanfarin ár hefur verið erfiðara að fá það til starfa á landsbyggðinni, að sögn Halldórs. „Til að sérfræðingar hafi næg verkefni í sinni sérgrein, þá þarf fjöldi sjúklinga að vera nægur. Fámenn byggðalög eiga erfitt með að uppfylla það. Af því leiðir að sérhæfðari þjónusta safnast á færri og stærri staði.“ Hann segir þessa þróun hafa átt sér stað um heim allan undanfarin tuttugu til þrjátíu ár.
Á HSS voru tvær skurðstofur útbúnar rétt fyrir bankahrunið árið 2008. Önnur var aldrei tekin í notkun en hin var notuð undir starfsemi HSS fram til ársins 2010 og var þá lokað. Sú aðstaða er nú leigð nokkra daga í mánuði til sérfræðings. Í fyrra voru gerðar þar 330 aðgerðir, meirihluti þeirra án innlagnar. Halldór segir raunhæft að auka starfsemi skurðstofunnar, sérstaklega með starfsemi sem ekki krefst innlagnar. Það sé hins vegar ekki raunhæft, miðað við núverandi forsendur, að reikna með ráðningu sérhæfðs starfsfólks til reksturs á skurðstofum alla daga ársins með sólarhringsþjónustu. „Það þarf að styrkja enn frekar samstarf og samvinnu heilbrigðisstofnana á landsvísu við Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri um þjónustu við sjúklingana, þannig að heilbrigðisstofnanir veiti alla þá þjónustu sem þeim er mögulegt með sterkt bakland Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri.“