Vont veður tefur aðgerðir í Helguvík
15 bjargað um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar eftir strand við hafnargarðinn
Nú stendur yfir samráðsfundur með fulltrúum Landhelgisgæslunnar, Lögreglunnar á Suðurnesjum, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar og almannavarna vegna strands flutningaskipsins Nordvik í Helguvík. Eins og staðan er á vettvangi er ekki talið forsvaranlegt að ráðast í aðgerðir að svo stöddu vegna slæmra veðuraðstæðna. Ákvörðun um næstu skref verður tekin síðar í dag.
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá flutningaskipi klukkan 00:50 í nótt en það hafði strandað við hafnargarðinn í Helguvík. Þyrlur Landhelgisgæslunnar, TF-GNA og TF-LIF, voru þegar í stað kallaðar út auk björgunarsveita frá Suðurnesjum og Hafnarfirði. Varðskipið Týr var einnig sent á staðinn en það var statt undan Þorlákshöfn. TF-GNA tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 1:20 og hóf björgunaraðgerðir skömmu síðar. Laust eftir klukkan 2:00 hafði áhöfn þyrlunnar bjargað öllum 15 um borð, 14 manna áhöfn og íslenskum lóðs. Á meðan björgunaraðgerðum stóð lamdist skipið við stórgrýttan hafnargarðinn.