Vonbrigði hjá Suðurnesjamönnum
Suðurnesjamönnum finnast það vonbrigði mörgum hverjum að Sparisjóðurinn verði ekki endurreistur og að innlán sjóðsins renni inn í Landsbanka Íslands. Óvissa ríkir en vonir eru bundnar við að myndin skýrist um helgina. Undir SPKEF Sparisjóð heyra 16 afgreiðslustaðir og í Reykjanesbæ eru starfsmennirnir 80 talsins.
Erfiðlega hefur gengið að ná tali af mönnum sem tengjast málinu í dag eftir að þær fréttir bárust rétt fyrir hádegi að sjóðurinn verði ekki endurreistur, heldur renni inn í Landsbanka Íslands.
Á Suðurnesjum eru Landsbankinn og SPKEF Sparisjóður báðir með afgreiðslur í Reykjanesbæ og Grindavík. Sparisjóðurinn er með tvær afgreiðslur í Reykjanesbæ og einnig í Garði, Sandgerði og Vogum. Viðskiptablaðið hefur fyrir því heimildir að einhverjar af 16 afgreiðslum SPKEF Sparisjóðs á landinu verði reknar áfram og þá undir nafni Landsbankans.
Ólíklegt er að Landsbankinn reki þrjár afgreiðslur í Reykjanesbæ og tvær í Grindavík.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra ræddi ítarlega við Víkurfréttir um Sparisjóðinn í Keflavík í viðtali sem Víkurfréttir áttu við hann þann 30. nóvember í fyrra eða fyrir þremur mánuðum síðan. Á þessum þremur mánuðum hafa greinilega orðið miklar áherslubreytingar hjá fjármálaráðherra, eins og sjá má og heyra í sjónvarpsviðtalinu sem er hér meðfylgjandi.
Í frétt á vf.is sem fylgdi viðtalinu segir að um leið og næst samkomulag við kröfuhafa Sparisjóðsins í Keflavík er ríkinu ekkert að vanbúnaði að endurfjármagna stofnunina.„Það mun kosta mikla fjármuni, en við munum gera það samt,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra í samtali við Víkurfréttir. „Þetta er spurnig um líf eða dauða fyrir sparisjóðakeðjuna í landinu en þó fyrst og síðast þarf að vera hér öflug fjármálastofnun. Um leið og þetta gengur upp þá klárum við það verkefni að endurfjármagna sparisjóðinn.
Sjá viðtal við fjármálaráðherra í meðfylgjandi myndskeiði.