Vonbrigði ef sóknarfærið verður ekki nýtt
Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði, segir það vonbrigði að strandveiðiverkefni það sem kynnt var á síðasta ári hafi ekki fengið það brautargengi sem vonast var eftir hér á Suðurnesjum.
„Það vantar áhugasama einstaklinga til að koma inn í þetta og klára dæmið. Víða um land, þar sem þetta var kynnt, var nokkur áhugi og menn fóru ágætlega af stað með þetta. Hér virðist hins vegar ekki vera jafn mikill áhugi og það er merkilegt vegna þess að útlendingarnir sem voru að vinna í þessu með okkur segja að hér við Faxaflóann, frá Vogum og suðurúr, sé langbesti staðurinn til að stunda þetta,“ sagði Ásmundur í samtali við VF.
En hvað vantar upp á?
„Vantar ekki bara orðið eldmóðinn í fólk? Það er einhvern veginn slegið á allar hendur,“ svaraði Ásmundur.
Hann segir hugmyndina hafa gengið út á að inn í verkefnið kæmu einstaklingar með þekkingu og aðgang að veiðisvæðum og færu í samstarf við ferðaþjónustuaðila á svæðinu. Markaðurinn sé gríðarlega stór og því séu það vonbrigði ef menn ætli ekki að nýta betur þetta spennandi sóknarfæri. Ásmundur telur góðar líkur á því að áhugasamir aðilar geti fengið opinbera styrki til að koma verkefninu af stað.
Í dag er talið að um 10 milljónir manna í Evrópu stundi strandveiðar sem fara fram annað hvort af bryggjum eða með strandlengjunni. Sveitarfélagið Garður lét vinna forkönnun og verkefnaáætlun vegna strandveiða á Suðurnesjum og kynnti verkefnið fyrir hagsmunaaðilum á síðasta ári. Virtist áhugi vera nokkur en lítið hefur gerst í framhaldinu.
Tengd frétt:
Miklir möguleikar í þjónustu við strandveiðimenn á Suðurnesjum.