Vonast til að ná meiri orku með minni umhverfisáhrifum
Tilraunir HS Orku á djúpborunum á Reykjanesi gefa góð fyrirheit um að hægt sé að vinna umtalsvert meiri orku á svæðinu með mun minni umhverfisáhrifum og minni kostnaði. Borað var niður á 4.650 metra dýpi sem gerir holuna þá dýpstu á landinu. Öll markmið verkefnisins náðust en nýtingarmöguleikar djúpborunarholunnar liggja þó ekki fyrir fyrr en í árslok 2018 þegar rannsóknum á henni lýkur. Þetta kom fram á hádegisfundi HS Orku í dag.
„Ef okkur tekst að nýta holuna þýðir það að djúpborunarholur gefa meira afl en hefðbundnar holur. Það þýðir að það þarf færri holur til orkuvinnslu með minni umhverfisáhrifum og lægri kostnaði en við hefðbundna vinnslu,“ segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku.
Öll markmið verkefnisins náðust
Íslenska djúpborunarverkefnið (IDDP) hefur verið starfrækt í um 15 ár. Tilgangur verkefnisins er að rannsaka hvort framleiða megi orku úr djúplægum jarðhitakerfum sem aukið getur orkuframleiðslu háhitasvæða umtalsvert og þar með dregið úr landrýmisþörf orkuvinnslunnar. Fyrsta djúpborunarholan var boruð í Kröflu árið 2009 en HS Orka hefur leitt annan áfanga verkefnisins (IDDP-2) og lagði til þess holu 15 á Reykjanesi. Borun tók um fimm mánuði en henni lauk um miðjan janúar, á 4.650 metra dýpi.
Öll markmið verkefnisins náðust en þau voru, auk borunarinnar sjálfrar, að ná borkjörnum (bergi), mæla háan hita og finna lekt berg. Hitinn á botni holunnar hefur þegar mælst 427 gráður eftir skamma upphitun holunnar og þrýstingur 340 bar. Það er því ljóst að við botn holunnar hefur vökvinn náð yfirhituðu ástandi sem gefur vísbendingar um að hægt sé að nýta hann til orkuöflunar.
Merkur áfangi í vinnslu jarðhita
Ekki hefur áður verið kannað hvað er fyrir neðan núverandi vinnslusvæði á Reykjanesi. Hola 15, vinnsluhola HS Orku, var 2.500 metra djúp í upphafi borunar. Í fyrsta áfanga verksins var borað niður á 3.000 metra dýpi og stálfóðring steypt í bergið. Svo djúpri fóðringu hefur aldrei áður verið komið fyrir í borholu á Íslandi. Þaðan var borað niður úr fóðringunni og því borað niður fyrir kerfið sem er umhverfis holuna, þar sem dýpstu borholur eru um 3.000 m djúpar.
Nú taka við rannsóknir en besta niðurstaða úr verkefninu væri ef hægt er að nýta holuna sem vinnsluholu en það myndi opna nýja vídd í vinnslu jarðhita, það er með því að ná vökvanum upp úr holunni á hærra hitastigi og þar með meira orkuinnihaldi en hingað til hefur verið gert. Miðað við hitann og þrýstinginn í holunni er hugsanlega hægt að vinna úr henni á bilinu 30-50 MW sem er talsvert meira en hefðbundin vinnsluhola.
Margar áskoranir og lærdómsferli
Borun holunnar fylgdu margar og flóknar tæknilegar áskoranir. Borun verður jafnan flóknari og erfiðari eftir því sem neðar dregur. Til að byrja með gekk erfiðlega að ná borkjörnum úr holunni en að lokum náðust 23 metrar í 13 tilraunum og síðasti kjarninn var tekinn við botn holunnar á 4.650 metra dýpi. Ekki var hægt að nýta hefðbundnar aðferðir við borunina nema að hluta til og því voru þróaðar aðferðir til að tryggja framgang verksins. Holan er boruð beint (lóðrétt) niður í 2.650 metra og eftir það er hún stefnuboruð. Botn holunnar er á tæplega 4.500 m dýpi, 738 m suðvestan við topp holunnar. Ýmsar óvæntar uppákomur voru við framkvæmd verksins og nokkrum sinnum í verkinu festist borinn. Jafnan tókst vel að losa og vinna úr öðrum vandamálum sem upp komu.
Verkefnið hefur verið mikið lærdómsferli og það sem stendur upp úr við lok borunar er sú staðreynd að hægt er að bora svona langa og djúpa holu. Við það hefur orðið til þekking sem nýtast mun í öðrum verkefnum sem og möguleikar á að dýpka aðrar holur, byggt á þessari reynslu. Eins og fram hefur komið er um rannsóknar- og þróunarverkefni að ræða og eru borlokin einungis einn kafli í verkefninu. Næstu skref eru vinnslutilraunir og blástursprófanir sem munu standa næstu tvö árin. Endanleg niðurstaða varðandi nýtingarmöguleika á holunni munu sem fyrr segir ekki liggja fyrir fyrr en í lok árs 2018.