Von á niðurstöðum mælinga eftir helgi
- Enn óljóst hvaða efni bárust frá United Silicon
Von er á niðurstöðum úr greiningu á efnum sem berast frá kísilverksmiðju United Silicon eftir helgi, að sögn Kristleifs Andréssonar, stjórnanda öryggis- og umhverfismála hjá fyrirtækinu. Sýni voru tekin úr verksmiðjunni þann 10. apríl síðastliðinn við stöðvun og uppkeyrslu á ofni. Sýnin voru send til Matís til greiningar. Tengsl eru á milli stöðvunar og uppkeyrslu ofnsins og mengunar. Grunur er um að frá verksmiðjunni streymi efni sem ekki eru meðal þeirra sem mæld eru í nágrenninu, svo sem maurasýra og ediksýra.
Ekki er framleiðsla í verksmiðjunni þessa dagana vegna eldsvoða þar fyrr í vikunni. Umhverfisstofnun íhugar að stöðva starfsemina að sinni vegna mengunar. United Silicon hefur frest til klukkan 12:00 á hádegi í dag til að gera athugasemdir við þau áform. Í stöðvuninni felst að ofn verksmiðjunnar verði ekki gangsettur á ný nema í samráði við Umhverfisstofnun.
Líkt og komið hefur fram í fréttum undanfarna mánuði hafa íbúar í Reykjanesbæ ítrekað fundið fyrir mengun frá verksmiðjunni síðan hún var gangsett í nóvember síðastliðnum. Fólk hefur fundið fyrir einkennum, svo sem sviða í augum, hálsi, ertingi í lungum, hausverk, ógleði og kláða í andliti.
Á fjórum mælistöðvum í nágrenni við verksmiðjuna í Helguvík er magn kolmonoxíðs, brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnisdíoxíðs og brennisteinsvetnis mælt. Magn þessara efna hefur ekki farið yfir heilsuverndarmörk. Í bréfi Umhverfisstofnunar til United Silicon, þann 12. apríl síðastliðinn, segir að mögulegt sé að út í andrúmsloftið streymi efni sem kunna, að mati sóttvarnalæknis, að hafa áhrif á heilsufar til langtíma ef mjög mikil mengun verði, jafnvel þó að það sé í stuttan tíma. Þau geti valdið óþægindum án þess að hætta sé á ferðum og að öll geti þau haft slæm áhrif á heilsuna ef mengunin varir lengi, sérstaklega hjá einstaklingum með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma. Í bréfinu segir að hugsanlega geti þetta verið efni svo sem ediksýra, maurasýra, methyl mercaptan og ýmis aldehýð efni. Efnin eru ekki hluti af mæliáætlun United Silicon og er magn þeirra í andrúmslofti því ekki mælt. Líkt og áður sagði er nú verið að greina efni úr verksmiðjunni hjá Matís og er niðurstöðu að vænta eftir helgi.
Hér að neðan eru upplýsingar um efnin sem grunur er að um að hafi streymt frá verksmiðjunni. Upplýsingarnar eru fengnar úr bréfi Umhverfisstofnunar til United Silicon frá 12. apríl síðastliðnum.
Ediksýra - Kemur fram sem lyktarmengun og erting í slímhúð, til dæmis í augum og öndunarfærum, þar með talin astmalík einkenni. Kemur fram við tiltölulega lága þéttni sem er ekki talin hættuleg en hættumörk eru ekki vel skilgreind. Meiri þéttni fylgir meiri erting.
Maurasýra - Lyktarmengun fylgir maurasýrunni og getur komið fram við nokkuð háa þéttni miðað við vinnuverndarmörk, hættumörk eru ekki vel skilgreind. Erting í slímhúðum og hósti eru þekkt áhrif. Einkenni geta verið verri ef edikssýra og maurasýra blandast.
Dhloromethane/methyl chloride - Mjög ertandi ef það blandast vatni, til dæmis í slímhúðum augna og loftvega, bronar niður í saltsýru og metanól. Þegar það hitnar mynast klórgas. Hugsanlega hættulegt í styrk sem er undir lyktarmörkum. Er yfirleitt ekki talið lykta sérlega illa.
Methyl mercaptan - Lyktar mjög illa og líkist lyktin soðnu káli, finnst þó styrkur sé mjög lágur. Efnið er mjög ertandi fyrir slímhúðir í tiltölulega lágum styrk.
Ýmis aldehýð - Geta verið ertandi og haft óþægilega lykt.