Vogar: Umfjöllun um línulagnir frestað
Umhverfisnefnd Voga frestaði til næsta fundar frekari umfjöllun um háspennulínur í landi sveitarfélagsins þegar nefndin kom saman í síðustu viku.
Að sögn Róberts Ragnarssonar, bæjarstjóra Í Vogum, er málið enn í vinnslu. „Við höfum verið að fá frekari gögn og erum að skoða málið. Ég held að það muni taka nokkurn tíma í viðbót,“ sagði Róbert í samtali við VF.
Hugmyndir Landsnets um háspennulínur í sveitarfélaginu komu inn á borð bæjarráðs Voga um miðjan ágúst. Bæjarráð vildi ekki taka afstöðu til erindisins þar sem allur samanburður valkosta miðaðist eingöngu við lagningu loftlína en ekki jarðstrengja líkt og fulltrúar sveitarfélagsins höfðu óskað eftir á fundi með Landsneti í byrjun júní.