Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vogar: Suðurvellir fá viðurkenningu sem heilsuleikskóli
Mánudagur 14. nóvember 2005 kl. 13:43

Vogar: Suðurvellir fá viðurkenningu sem heilsuleikskóli

Leikskólinn Suðurvellir í Vogum hefur hlotið viðurkenningu sem heilsuleikskóli og var því fagnað með hátíð í Vogum á dögunum. Börn og foreldrar fóru í fjöruferð af þessu tilefni, þar sem kveiktur var varðeldur, spilað, sungið og boðið upp á heitt kakó.

Námskrá leikskólans Suðurvalla hefur verið uppfærð samkvæmt viðmiðum heilsustefnunnar og er nú hægt að nálgast hana hér á heimasíðunni. Unnur Stefánsdóttir, einn frumkvöðla stefnunnar heiðraði samkomuna með nærveru sinni og færði leikskólanum fána heilsustefnunnar að gjöf. Jóhanna Reynisdóttir sveitarstjóri og Salvör Jóhannesdóttir skólastjóri leikskólans drógu síðan fánan að húni.

Nú eru heilsuleikskólarnir á Suðurnesjum orðnir þrír talsins, en eru sjö á landsvísu. Mótun leikskólastarfsins að heilsustefnunni hófst í leikskólanum Suðurvöllum vorið 2004. Þá um haustið var síðan dagskipulagið sniðið að viðmiðum stefnunnar.

Markmið heilsustefnunnar er að venja börn strax í barnæsku við heilbrigða lífshætti með það í huga að þeir verði hluti af lífsstíl þeirra til framtíðar. Áhersluþættirnir geta verið mismunandi eftir leikskólum, en góð næring, mikil hreyfing og listsköpun er aðalsmerki þeirra.

Í næringu er boðið upp á hollan og næringarríkan mat, þar sem sykur, salt og fita er notuð í lágmarki og lögð áhersla á að auka ávaxta- og grænmetisneyslu. Í hreyfingu er lögð áhersla á að auka hreyfifærni, líkamsvitund, vellíðan, gleði, snerpu og þol. Þannig er síðan stuðlað að aukinni félagsfærni og eflingu vináttubanda.

Í listsköpun er lögð áhersla á að börnin tjái sig frjálst og að sköpunargleðin fái að njóta sín.

„Náttúra, umhverfi og samfélag“ er ný námsleið innan heilsustefnunnar sem þróuð var á Suðurvöllum. Eins og nafnið gefur til kynna, er um að ræða skipulagðar vettvangsferðir með börnunum um Voga og nánasta umhverfi. Þessi námsþáttur á rætur að rekja til þróunarverkefnis leikskólans Tjarnarsels í Reykjanesbæ: „Vettvangsferðir um nánasta umhverfi leikskólans“ . Markmiðið er að börnin efli enn frekar hreyfiþroska sinn og þrek, um leið og þau öðlast betri þekkingu og skilning á umhverfi sínu og samfélagi. Þannig læra þau að meta það og sýna því virðingu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024