Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vogar samþykkja sölu til Geysis Green Energy
Þriðjudagur 3. júlí 2007 kl. 10:54

Vogar samþykkja sölu til Geysis Green Energy

Bæjarstjórn Voga samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær að ganga til samninga við Geysir Green Energy um kaup á hlut bæjarins í Hitaveitu Suðurnesja á genginu 7,1.
Eignarhlutur Sveitarfélagsins Voga verði 0,1% í Hitaveitu Suðurnesja eftir sölu á 2,62 % eignahlut til Geysir Green Energy ehf.

Bæjarstjórn lagði fram eftirfarandi bókun á fundinum:
Þann 3. maí síðastliðinn samþykkti fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins tilboð Geysirs Green Energy í hlutabréf ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja, á kaupverðinu 6,72 kr. á hvern hlut. Sveitarfélagið Vogar, ásamt öðrum sveitarfélögum sem hlut eiga í HS áttu þess kost að ganga inn í kaupin á grundvelli forkaupsréttarákvæðis í samþykktum HS. Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga hefur fjallað um þann möguleika, en talið kaupverðið of hátt til að réttlæta slíka fjárfestingu.

Síðastliðinn föstudag barst Sveitarfélaginu Vogum tilboð frá Geysir Green Energy um sölu á hlut Sv. Voga í Hitaveitu Suðurnesja á genginu 7,1 kr. á hvern hlut. Að mati þeirra fjármálasérfræðinga sem leitað var til er verðið mjög gott, enda rúmlega tvöfalt á við verðmat sem framkvæmt var fyrir ríkið í aðdraganda útboðs á hlut þeirra.

Sala á hlut sveitarfélagsins við þessar aðstæður eru því taldar ákjósanlegar til að festa frekar í sessi þann varasjóð sem bréf HS hafa verið sveitarfélaginu hingað til. Með því að ganga að þessu tilboði hafa bæjaryfirvöld tryggt ákveðið fjármagn sem ávaxta má með ríkulegum hætti til framtíðar, sveitarfélaginu til heilla.

Aðdragandinn að þessu samningarferli var mjög stuttur og voru því þau sveitarfélög á Suðurnesjum sem höfðu aðkomu að þessu máli sammála um að vera samstíga í þessu verkefni og var samstaðan mikil. Það er ljóst að þeir bæjarfulltrúar Sveitarfélagsins Voga sem hafa samþykkt þennan samning gera það með þeirri forskrift að hér sé um varasjóð að ræða og því er öryggisventillinn enn til staðar þó svo hann sé í formi fjármagns í stað bréfa í HS. Á næstu misserum verður unnið að því að tryggja sem best að fjármagnið nýtist íbúum Sveitarfélagsins Voga til framtíðar.


Fyrir helgi samþykkti bæjarráð Sandgerðis, sem hafði áður fengið ótakmarkað umboð bæjarstjórnar til slíks, að taka tilboði GGE og einnig að falla frá forkaupsrétti sínum á hlut ríkisins í Hitaveitunni.

Eignarhlutur Sandgerðisbæjar í Hitaveitu Suðurnesja eftir viðskiptin verður 0,323% eftir sölu á 5% eignahlut til G.G.E. ehf.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024