Vogar leggja fram ný gögn vegna Suðurnesjalínu 2
Umsókn Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi vegna lagningar Suðurnsjalínu 2 er enn til efnislegrar meðferðar hjá Sveitarfélaginu Vogum. Hefur Landsneti verið gefinn kostur tjá sig um hin nýju gögn og niðurstöður þeirra. Þá hefur sveitarfélagið óskað eftir áliti Landsnets hf. á því hvort niðurstöður Dr. Ástu Rutar Hjartardóttur breyti einhverju um mat félagsins á öryggi jarðstrengs m.t.t. þess sem fram kemur í greinargerð hennar samanborið við loftlínu sem sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir. Þetta kemur fram í frétt frá Sveitarfélaginu Vogum.
Landsnet sendi frá sér tilkynningu nýlega þar sem lýst er yfir óánægju yfir því að Sveitarfélagið Vogar hafi ekki enn afgreitt umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Í svari frá sveitarfélaginfu í kjölfarið kom fram að málið væri í eðlilegum farvegi.
Í nýjustu tilkynningu á heimsíðu Voga segir einnig:
Í greinargerð Dr. Ástu Rutar Hjartardóttur jarðeðlisfræðings hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, um bergsprungur í nágrenni Voga er fjallað um sprunguhreyfingar í nágrenni við sveitarfélagið og meðfram þeim valkostum sem hafa verið til skoðunar vegna lagningar Suðurnesjalínu 2. Í niðurstöðum kemur fram að hreyfingar á sprungum hjá áætluðum jarðstreng í Þráinsskjaldarhrauni séu litlar. Mælir höfundur með því að línan sé lögð norðarlega á svæðinu frekar en sunnarlega, enda minnki það bæði líkur á að hraun renni yfir lagnaleiðina og á sprunguhreyfingum undir henni. Þá kemur fram að við norðurhluta Rauðavatns liggi nú þegar jarðstrengur, á svæði sem er nokkuð keimlíkt svæðinu þar sem umræddur jarðstrengur er teiknaður við Reykjanesbraut. Því sé mikilvægt að huga að þeim jarðstreng ef talið er að ekki sé skynsamlegt að leggja jarðstreng við Voga vegna sprunguhreyfinga.
Eru þessar niðurstöður í samræmi m.a. við álit Skipulagsstofnunar sem í áliti sínu um mat á umhverfisáhrifum Suðurnesjalínu 2 benti á mögulegan ávinning af því að leggja línuna sem jarðstreng meðfram Reykjanesbraut, fremur en sem loftlínu eða jarðstreng meðfram Suðurnesjalínu 1, með tilliti til náttúruvár.
Tilkynning Sveitarfélagsins Voga.