Vogar koma skemmtilega á óvart
- segir Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri í viðtali við Víkurfréttir
Fjölskyldudagar voru haldnir í Sveitarfélaginu Vogum frá fimmtudegi til sunnudags um þar síðustu helgi. Í boði var fjölbreytt dagskrá fyrir alla aldurshópa. Hátíðin náði hámarki á laugardeginum. Að deginum til var dagskrá í Aragerði sem var sniðin fyrir börn og fjöldi leiktækja en um kvöldið var blásið til tónleika og kvöldinu lauk svo með flugeldasýningu sem Björgunarsveitin Skyggnir annaðist.
Á föstudeginum var tekin í notkun ný stúka við íþróttavöllinn sem var byggð af sjálfboðaliðum sem tóku sig til og fjármögnuðu verkefnið og höfðu frumkvæði að því sjálfir. Á fjölskyldudögum var einnig haldið golfmót, farin söguganga og vígð ný upplýsingaskilti í sveitarfélaginu. Þá endaði hátíðin með tónleikum í Tjarnarsal grunnskólans á sunnudagskvöldinu.
Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Vogum, er ánægður með hvernig til tókst. Hátíðin hefur verið haldin í nokkur ár og alltaf um þessa sömu helgi í ágúst. „Hátíðin hefur náð að festa sig í sessi en dagskráin er á svipuðum nótum frá ári til árs. Íbúarnir eru mjög virkir en við skiptum bænum upp í þrjú hverfi sem öll hafa sinn lit. Við höfum hverfaleika en allt gengur þetta út á að efla íbúana og samkennd þeirra og efla bæjarbraginn,“ segir Ásgeir í samtali við Víkurfréttir.
– Nú komst þú hingað til starfa um mitt síðasta kjörtímabil. Hvernig koma Vogar þér fyrir sjónir?
„Þeir koma mér skemmtilega á óvart og ég hef ekkert nema jákvæða og góða reynslu af Vogunum. Þetta er samfélag sem byggir fyrst og fremst á góðu mannlífi. Hér er stutt í allar áttir og Vogar eru vel staðsettir. Það er jafn langt fyrir okkur að fara á höfðuborgarsvæðið eins og til Reykjanesbæjar eða á flugvöllinn. Það er mikil og rík saga hér. Löng útgerðarsaga, t.a.m. árabátaútgerð inn eftir allri Vatnsleysuströndinni. Það er mikið dreifbýli hér inn eftir strönd þannig að við erum með góða blöndu af byggð og frábæra náttúru sem leynir á sér þegar maður fer að kynna sér hana aðeins“.
Egg og beikon
Atvinnulífið í Vogum byggir fyrst og fremst á matvælaframleiðslu. Nokkur leiðandi fyrirtæki hafa aðsetur í Vogum og á Vatnsleysuströnd. Í lögsögu Voga eru bæði stórt svínabú og stórt eggjabú. Í sveitarfélaginu eru tvær fiskvinnslur og tvö fiskeldisfyrirtæki. Þá er þar þjónustustarfsemi auk starfsemi sveitarfélagsins sjálfs.
Ásgeir bæjarstjóri segir að rekstur sveitarfélagsins gangi þokkalega. Afkoman er nokkurn veginn í járnum en þó réttum megin við strikið alla jafna.
„Við höfum náð miklum árangri í að koma niður skuldahlutfalli okkar. Hér varð til sjóður þegar sveitarfélagið seldi hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja. Sá sjóður hefur nú verið notaður til að kaupa upp fasteignir sem á sínum tíma voru seldar inn í Eignarhaldsfélagið Fasteign. Við þessar aðgerðir lagast skuldahlutfallið mjög og er komið vel niður fyrir 100% viðmiðið sem er mjög fínt, þar sem leyfilegt er að vera með 150% skuldahlutfall.
Stolt af skólanum
Fræðslumálin í Vogum taka til sín stærsta hlutann af skattfé Vogamanna. Í grunnskólanum, Stóru-Vogaskóla, eru tæplega 200 nemendur. Þá rekur sveitarfélagið leikskóla og er með íþrótta- og félagsstarf. Ásgeir segir að íbúar í Vogum séu stoltir af skólanum sínum, enda séu nemendur að ná góðum árangri og þar starfi einvala lið góðs starfsfólks.
Sveitarfélagið Vogar stendur ekki fyrir neinum framkvæmdum um þessar mundir. Í sumar hafi þó verið unnið við lagfæringu á götum í bæjarfélaginu. Stefnan hefur verið sú eftir hrun að stíga varlega til jarðar. Í hruninu 2008 varð skuldsetningin sveitarfélaginu talsvert erfið. „Við erum fyrst og fremst að reyna að halda við okkar eignum en nýframkvæmdir eru í sjálfu sér engar frá því við tókum í notkunn nýja knattspyrnuvelli eða íþróttamannvirki fyrir nokkrum árum, sem var gert af myndarskap og kostaði talsvert mikið fé“.
Getum tekið við fleira fólki
Í Sveitarfélaginu Vogum búa í dag um 1130 manns en voru mest 1240-50 árið 2008. Fækkun íbúa hefur stöðvast og er fjöldi íbúa aftur á rólegri uppleið. „Við viljum gjarnan taka við fleira fólki og höfum innviði til að taka við fleiri íbúum. Vogar eru heppilega staðsettir og sérstaklega fyrir fólk sem þarf að sækja atvinnu út fyrir sveitarfélagið“. Flestir sækja vinnu út fyrir bæjarmörkin, bæði á höfuðborgarsvæðið og til Reykjanesbæjar. „Landrými er hér nægt og við vonumst til að íbúum fari að fjölga á nýjan leik,“ segir Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Vogum í samtali við Víkurfréttir. Ítarlegra viðtal er við Ásgeir í Sjónvarpi Víkurfrétta á vf.is.
Viðtal og myndir: Hilmar Bragi