Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vogar: Höfuðstóll Framfarasjóðs nýttur til uppgreiðslu lána
Miðvikudagur 3. mars 2010 kl. 08:54

Vogar: Höfuðstóll Framfarasjóðs nýttur til uppgreiðslu lána


Höfuðstóll Framfarasjóðs Sveitarfélagsins Voga verður nýttur til uppgreiðlsu lána og hluta skuldbindinga í fasteignaleigusamningum. Tillaga þess efnis var samþykkt í bæjarstjórn Voga á fimmtudaginn en þar var hún til seinni umræðu.

Inga Sigrún Atladóttir, bæjarfulltrúi H-lista, segir E-listann hafa komið í veg fyrir gagnsæi í ákvörðunartöku þegar hann hafnaði því við fyrri umræðu að hvert lán yrði reiknað út svo sjá mætti hvaða lán væri hagstætt í að greiða upp. Þetta kemur fram í bókun sem hún lagði fram fyrir hönd H-lista. Þar er fyrri afstaða H-listans ítrekuð og lagt til að ákvörðuninni verði frestað þar til slíkir útreikningar liggi fyrir.

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri, sagði að við fyrri umræðu og á íbúafundi hefði komið fram hvernig útreikningarnir væru miðað við væntanlega ávöxtun ársins og þróun vaxta og skatta. Ef þróun yrði á annan veg, reyndi ekki á heimildina.

„Ferlið við að sækja heimild til að nýta Framfarasjóðinn er tiltölulega langt og nauðsynlegt að sækja heimildina í upphafi árs til að hægt sé að greiða upp á lánin á árinu á sem hagstæðastan hátt. Rétt eins og gert er varðandi fjárhagsáætlun, þar sem fjárheimildir ársins eru sóttar. Ákvörðun um uppgreiðslu verður síðan kynnt í bæjarráði þegar og ef að því kemur.
Að mínu mati er varla hægt að ímynda sér gagnsærra ferli, en tillagan var kynnt og auglýst ásamt áliti sérfróðs aðila. Auk þess var tillagan rædd á opnum íbúafundi,“ sagði Róbert í bókun sem hann lagði fram.

„Útreikningar á hverju láni fyrir sig voru ekki kynntir á íbúafundi. Fyrir einum bæjarfulltrúa var kynnt hvernig uppgreiðslu gæti verið háttað. Aldrei hefur verið lagt fram yfirlit þar sem öll lánin eru reiknuð út frá núverandi stöðu ásamt uppgreiðslugjaldi á þeim lánum sem ekki eru með uppgreiðsluheimild,“ segir í andsvari Ingu Sigrúnar.

---

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Sveitarfélagið Vogar.