Vogar: Framkvæmt fyrir 100 milljónir á árinu
Sveitarfélagið Vogar hyggst framkvæmda fyrir 100 milljónir á þessu ári án nokkurrar lántöku. Hefja á framkvæmdir við fráveitu sveitarfélagins, sem er tveggja ára verkefni. Einnig verður farið í verkefni á leikskólalóð og íþróttasvæði og ráðist í endurgerð gatna.
„Við teljum mikilvægt að framkvæma einmitt núna. Opinberir aðilar sem geta fjármagnað sig eiga að fara í framkvæmdir,“ segir Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Vogum, aðspurður um það hvort sveitarfélagið ætti fremur að halda að sér höndum í kreppunni.
Róbert segir að við gerð fjárhagsáætlunarinnar hafi áhersla verið lögð á verkefni önnur en fasteignaverkefni sem skapa mikinn rekstrarkostnað. Auk þess væri engin þörf á fleiri fasteignaverkefnum í bili.
„Við einbeitum okkur því að verkefnum sem skapa einhver umsvif og atvinnu en auka ekki rekstrarkostnað. Það eru þá helst umhverfisverkefni sem snúa að útivistarsvæðum, endurnýjun gatna og lagna, lóðafrágang og aðrar jarðvegsframkvæmdir. Fráveitan er brýnt umhverfismál sem hefur legið lengi fyrir að við þyrftum að ráðast í,“ segir Róbert.
Fráveitan er stærsta verkefnið af þeim 100 milljón króna framkvæmdum sem sveitafélagið ætlar að ráðast í á þessu ári. Reiknað er með að ráðstafa 100 milljónum á tveimur árum í fráveituna.
Á næstu þremur árum er reiknað með að ráðstafa 100 milljónum í uppbyggingu á íþróttasvæði sveitarfélagsins en hún snýr að gerð valla og æfingsvæða.