Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Vogar: Foreldrar leggja fram undirskriftalista
Fimmtudagur 5. október 2006 kl. 12:57

Vogar: Foreldrar leggja fram undirskriftalista

Foreldrafélag Sunddeildar Ungmennafélagsins Þróttar í Vogum hafa  afhent bæjaryfirvöldum þar í bæ undirskriftalista til að koma á  framfæri óánægju sinni með þá ákvörðun bæjarstjórnar að endurnýja  ekki starfssamning við fyrrum sundþjálfara félagsins sem meðfram  þjálfuninni var í hlutastarfi hjá sveitarfélaginu sem framkvæmdastjóri UMFÞ.

„Eins og langflestir bæjarbúar vita hefur María Jóna Jónsdóttir átt  mjög stóran þátt í að byggja upp ungmennafélagið okkar og ekki síst  sunddeildina. Hún hefur lagt líf og sál í vinnu með börnunum okkar.  Frábært starf hennar hvefur vakið athugli um allt land. Við teljum að illa hafi verið komið fram við hana og börnin okkar, sem eru ekki  bara að missa frábæran sundþjálfara heldur góðan vin í daglegu lífi.  En auðvitað mun hún Mæja okkar samt halda áfram að fylgjast með  „sínum“ börnum, jafnt í lífi sem og í starfi,“ segir í bréfhaus undirskriftalistanna.

Málið kom til umfjöllunar á bæjarstjórnarfundi í vikunni. Meirihlutinn  lagði fram bókun þar sem ítrekuð er sú afstaða hans að UMFÞ séu  frjáls félagasamtök og bæjarstjórn hafi ekki lögsögu um innri málefni  þess.
Minnihlutinn lagði jafnframt fram bókun þess efnis að hann stæði  heilshugar að baki starfi UMFÞ og sunddeildarinnar, þó annað mætti   skilja á fullyrðingum meirihlutans,  eins og það er orðað í bókuninni.

„Þetta mál er byggt á miklum misskilningi. Það er ekki rétt að sveitarfélagið hafi ekki viljað endurnýja samning við sundþjálfarann. Hið rétta er að sveitarfélagið hefur síðastliðið ár haft
framkvæmdastjóra UMFÞ í hálfu stöðugildi á sinni launaskrá. Sá samningur rann út 30. ágúst,“ sagði Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Vogum þegar haft var samband við hann vegna málsins.

Róbert segir að sveitarfélagið hafi ekki rift neinum samningum, þvert á móti hafi bæjarráð samþykkt á fundi sínum þann 25. júlí síðastliðinn að veita UMFÞ styrk sem samsvarar hálfu stöðugildi framkvæmdastjóra í eitt ár til reynslu, sem skuli endurskoða að ári. Styrkurinn geti orðið allt að tveimur og hálfri miljón króna og er ætlað að  standa straum af kostnaði við greiðslu launa og launatengdra gjalda viðkomandi framkvæmdastjóra.

„Breytingin sem um ræðir er með öðrum orðum sú að launagreiðandi verður UMFÞ
í stað sveitarfélagsins. Breytingin er gerð á þeim forsendum að grundvallarforsenda öflugs starfs frjálsra félagasamtaka sé að þau séu frjáls og sjálfstæð. Í því felst að þau ráði sjálf sína starfsmenn og greiði þeim laun, en ekki sveitarfélagið,“ sagði Róbert.

„Ég tel að sveitarfélagið sé með þessu að styðja mjög vel við starfsemi UMFÞ og bind ég miklar vonir við að félagið eflist enn frekar á næstu árum, því þátttaka í íþróttum er mjög mikilvæg forvörn.
Ég tel að afstaða meirihlutans sé óbreytt frá í sumar, þ.e. að mikilvægt sé að styðja vel við íþróttastarfsemi í sveitarfélaginu og efla félögin sem sjálfstæðar einingar,“ sagði Róbert.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024