Vogamönnum fjölgað um 6,5% á tæpum tveimur árum
Íbúafjöldi Sveitarfélagsins Voga er nú 1.174. Í upphafi árs voru þeir 1.148, og hefur því fjölgað um 26, eða um 2,3%.
Svolitlar sveiflur hafa verið innan ársins, þannig að talsverð hreyfing virðist vera á fólki, segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum í vikulegu fréttabréfi í Vogum. Sé litið lengra aftur í tímann má sjá að í upphafi árs 2015 var fjöldi íbúa 1.102, okkur hefur því fjölgað um 6,5% á tæpum tveimur árum.
„Íbúafjöldinn reis hæst árið 2008, þá bjuggu hér 1.231 manns. Samsetning íbúafjöldans er smátt og smátt að breytast, þótt við séum enn með hátt hlutfall barna á leikskóla- og grunnskólaaldri. Þessi aldurshópur er nú 23% íbúanna, en var 26% íbúanna árið 2008,“ segir Ásgeir bæjarstjóri.