Vogamenn þrýsta á SSS vegna SBK
Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga beinir því til stjórnar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum að reynt verði til þrautar að fá SBK til að endurgreiða áður selda og ónýtta farmiða.
Minnisblað bæjarstjóra Voga með yfirliti um notkun Vogastrætó 2014 ásamt breytingum á fyrirkomulagi almenningssamgangna sem urðu í upphafi árs 2015 var tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi á dögunum. Í minnisblaðinu kemur m.a. fram að farmiðar sem gefnir voru út af SBK og seldir af sveitarfélaginu féllu úr gildi um áramótin og fást ekki endurgreiddir hjá SBK.
Bæjaryfirvöld í Vogum hafa samþykkt að endurgreiða bæjarbúum í Vogum sína farmiða. Unnt er að fá ónotaða miða endurgreidda gegn því að þeim sé skilað, auk þess sem greiðslukvittun fyrir miðakaupunum er framvísað eða þau sönnuð með öðrum hætti.