Vogamenn leita tilboða í bankaviðskipti
Í ljósi aðstæðna telur bæjarráð Voga rétt að fela bæjarstjóra að leita tilboða hjá öðrum bankastofnunum um viðskipti sveitarfélagsins. Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs eftir fund með forsvarsmönnum Landsbankans. Þar var tilkynnt að útibúi bankans í Vogum verði lokað frá og með 14. september nk.
„Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga harmar þá ákvörðun Landsbankans að loka afgreiðslu sinni í sveitarfélaginu. Þrátt fyrir að lokun afgreiðslunnar geti skilað hagræðingu í rekstri bankans skapar hún mikil óþægindi og leiðir til kostnaðarauka fyrir viðskiptavini bankans í Vogum, sérstaklega þá sem komnir eru á efri ár.
Á fundi með yfirmönnum bankans kom fram skýr vilji til að veita íbúum sveitarfélagsins þjónustu á staðnum m.a. með hraðbanka sem aðgengi er að allan sólarhringinn og sérstakri viðveru þjónustufulltrúa í hverri viku t.d. í tengslum við starf eldri borgara.
Nú þegar hefur verið stofnaður vinnuhópur bankans og bæjaryfirvalda um þjónustu bankans við íbúa sveitarfélagsins.
Í ljósi aðstæðna telur bæjarráð rétt að fela bæjarstjóra að leita tilboða hjá öðrum banakstofnunum um viðskipti sveitarfélagsins,“ segir í bókun bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga.