Vogamenn endurskoða aðalskipulag
Endurskoðun aðalskipulags Sveitarfélagsins Voga er hafin en starfshópur kom saman til síns annars fundar í vikunni sem leið. Á þann fund mættu skipulagsráðgjafar sveitarfélagsins sem fóru yfir verk- og tímaáætlun verkefnisins, sem nú liggur fyrir í drögum.
Gera má ráð fyrir að verkefnið taki allt að tveimur árum, enda umfangsmikið og vandasamt, segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum í pistli sem hann skrifar. Gert er ráð fyrir víðtæku samráði við íbúa jafnt sem aðra hagsmunaaðila um aðalskipulagsvinnuna.
Markmiðið er að endurskoðað aðalskipulag sveitarfélagsins endurspegli þróunina næstu 20 árin. Það er því að mörgu að hyggja og mikilvægt að vel takist til, segir bæjarstjórinn í pistlinum.