Vogamenn ekki nógu duglegir í bólinu
– slá slöku við í barneignum og þurfa ástarviku
Samkvæmt tölu Hagstofunnar bjuggu 1.118 íbúar í Vogum um mitt árið. Þá hafði bæjarbúum fækkað um 11 manns frá áramótum. Í vikulegu fréttabréfi bæjarstjórans í Vogum, sem kom út í morgun, segir að áhugavert sé að skoða fjölda barna í hverjum árgangi.
Í grunnskólanum eru tæplega 200 nemendur í 10 árgöngum, svo meðaltal í árgangi er um 20 nemendur. Í árgöngum leikskólabarna eru eilítið færri nemendur að meðaltali í árgangi, eða liðlega 17 börn.
Það sem vekur hins vegar athygli að börn á fyrsta ári eru einungis 6 talsins samkvæmt gögnum Hagstofunnar.
„Vogabúar eru því eitthvað að slá slöku við í barneignum. Við ættum e.t.v. að taka Bolvíkinga okkur til fyrirmyndar og efna til ástarviku?,“ segir Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri í Vogum í fréttabréfinu.