Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

VL: Allt í hnút í deilu starfsfólks og starfsmannahalds
Fimmtudagur 15. júní 2006 kl. 10:10

VL: Allt í hnút í deilu starfsfólks og starfsmannahalds

Fimm konum, sem hafa unnið hjá mötuneyti flughersins á Varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli í áraraðir, hefur verið hótað af starfsmannahaldi Varnarliðsins að launagreiðslur verði stöðvaðar vegna deilu um tilfærslu á störfum þeirra innan vallarins.

Forsaga málsins er sú að starfsemi mötuneytis flughersins var hætt með stuttum fyrirvara í síðustu viku og var konunum tilkynnt að þær skyldu eftir það mæta til vinnu í Messanum, sem er undir stjórn Sjóhersins. Það sættu þær sig alls ekki við þar sem þær segj að hingað til hafi ekki verið leyfilegt að flytja starfsfólk á milli mismunandi deilda á Varnarsvæðinu án samþykkis þeirra.

„Við höfum alls ekkert á móti starfsfólki Messans eða þeim vinnustað. Við viljum bara að farið sé eftir reglum,“ sögðu konurnar í samtali við Víkurfréttir. „Við höfðum samband við Verkalýðsfélagið sem mun styðja okkur í að leita réttar okkar.“

Þær fengu tilkynningu um að þær skyldu mæta til vinnu í Messanum í lok síðustu viku, en töldu starfslýsingu sína kveða skýrt á um að þær skyldu sinna störfum sínum í hinu svokallaða Stone Eagle-húsi og mættu þær þangað á mánudag en ekki á Messann. Starfsmannahald Varnarliðsins leit svo á að með því hefðu þær sagt upp og tilkynntu konunum bréflega að þær hafi verið teknar af launaskrá.

Friðþór Eydal hjá Upplýsingaskrifstofu Varnarliðsins sagði í samtali við Víkurfréttir að Varnarliðið styddist við Varnarsamninginn þar sem fram komi að Varnarliðið sé ein eining. Þess vegna sé Starfsmannahaldinu heimilt að færa fólk á milli deilda sé engin breyting gerð á launakjörum eða vinnutíma líkt og í umræddu tilfelli.

Hvað sem áliti forsvarsmanna Varnarliðsins líður segjast konurnar staðráðnar í því að halda áfram baráttu sinni og ekki linna látum fyrr en gengið verði að kröfum þeirra, þ.e. að þær fái greiddan upp uppsagnarfrest sinn. Þær segja að þær hefðu glaðar viljað vinna á sínum vinnustað þar sem þær unu hag sínum mjög vel þar til herinn færi. Það hafi ekki verið þeirra ákvörðun að leggja vinnustaðinn niður og sé það Varnarliðsins að gera upp við þær.

Mynd: Konurnar fyrir utan gamla vinnustaðinn, Stone Eagle
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024