Vistbók - gagnabanki fyrir umhverfisvotuð byggingarefni
Vistbók er verkefni þriggja kvenna úr Grindavík, Rósu Daggar Þorsteinsdóttur, lýsingarhönnuðar, Svölu Jónsdóttur, innanhúsarkitekts, og Berglindar Ómarsdóttur, tölvunarfræðings. Nýlega hefur síðan Davíð Halldórsson, rekstrarhagfræðingur úr Hafnarfirði, komið til liðs við teymið.
Markmið verkefnisins er að hanna og þróa gagnagrunn og leitarvél sem gerir notandanum kleift að sækja upplýsingar um allar umhverfisvottaðar byggingarvörur hérlendis og vera þannig drifkraftur í að flýta fyrir grænni byggingariðnaði fagaðila og einstaklinga sem standa í byggingarframkvæmdum og um leið tækifæri fyrir þá að skilja eftir sig græn spor til framtíðar.
Verkefnið hefur fengið styrki úr Hönnunarsjóði
Frumkvöðlaverkefnið gengur vel að sögn Rósu Daggar og Svölu. Teymið hefur fengið styrki frá Hönnunarsjóði og núna er verið að vinna í gagnagrunni leitarvélarinnar, síðan kemur til með að byggjast ofan á leitarvélina hugbúnaðarlausn í formi vefsíðu sem nýtist notendum og sparar hönnuðum, arkitektum og verktökum tíma í að setja upp verkefni sín og viða að sér umverfisvottuðum efnum sem þeir þurfa í verkefni sín. Verkefnið er tímafrekt og flókið, gagnagrunnurinn kemur m.a. til með að halda utan um uppruna allra efna, skjöl sem þurfa að fara til vottunaraðila að sögn Rósu Daggar. „Við erum að bæta þessa ferla þannig að ferlið verði auðveldara, einfaldara og hagkvæmara fyrir þá sem vilja byggja með þessum hætti,“ bætti Svala við.
Við erum að vakna til meðvitundar
Íslendingar eru að verða meðvitaðir um vistvænan og umhverfisvænan byggingarmáta að mati Rósu og Svölu en alltaf má gera betur. „Við erum á eftir Norðurlöndunum í umhverfisvottuðum byggingarverkefnum. Ríkið hefur þó staðið sig ágætlega í þessum efnum og má þar nefna byggingar eins og Veröld - hús Vigdísar, Skriðuklaustur og fangelsið á Hólmsheiði eru allar BREEAM-vottaðar, sem er alþjóðlegt umhverfisvottunarkerfi. Fyrsta umhverfisvottaða einbýlishúsið var síðan byggt í Urriðaholti árið 2017.
Við erum í samstarfi við Byko og fleiri aðila í þessari þróun og þar sem þetta er frekar nýtt fyrir flestum þá erum við öll að læra heilmikið í þessari vegferð, m.a. áttuðu starfsmenn Byko sig á að mun stærri hluti þeirra byggingavöru er þegar með umhverfisvottun.“
Til mikils að vinna
Hagur þeirra sem vilja byggja og búa í umhverfisvottuðum byggingum liggur í bættu heilsufari og síðan spilla þær ekki umhverfinu – tvö vottunarkerfi eru aðallega notuð hér á landi, annars vegar Svansvottunin, þar sem meginmarkmiðið er að draga úr umhverfisáhrifum bygginga og vernda heilsu þeirra sem koma að verkinu á framkvæmdartíma sem og þeirra sem nota bygginguna eftir að hún er tekin í notkun, hins vegar er það BREEAM-vottunin, sem leggur áherslu á að draga úr kolefnisspori byggingarinnar að sögn Svölu. „Byggingariðnaðurinn er að losa meira kolefni en við gerum okkur grein fyrir í dag, við vitum að hann er ábyrgur fyrir um 40% losun á heimsvísu en hérna á Íslandi hefur þetta ekki verið mælt.“
Þær stöllur sjá mikla viðhorfsbreytingu og aukna vitundarvakningu gagnvart heilsubætandi umhverfi og þá m.a. í umhverfisvottuðum byggingum. „Hafnarfjarðarbær er meira að segja að gefa afslátt á lóðarverði þegar um vottaða byggingu er að ræða.
Við erum núna á fullu að koma vefnum í loftið og vonandi verðum klár innan fárra mánaða,“ sögðu Rósa Dögg og Svala að lokum.