VÍSIR KAUPIR MEIRIHLUTA Í BÚLANDSTINDI Á DJÚPAVOGI
Útgerðarfyrirtækið Vísir hf. í Grindavík hefur keypt meirihluta í Búlandstindi hf. á Djúpavogi. Þetta kom fram á aðalfundi Búlandstinds í fyrradag.Vísir hf. er fjölskyldufyrirtæki með fimm línuskip á sínum snærum, saltfiskvinnslu og útgerð í Grindavík og er eitt af stærstu útgerðarfyrirtækjum í bæjarfélaginu.Pétur H. Pálsson vildi ekki ræða kaupverð í samtali við fjölmiðla í gær né af hverjum hlutaféð væri keypt. Rekstur Búlandstinds hefur gengið erfiðlega og var tap á nýliðnu rekstrarári 194 milljónir króna. Skuldir fyrirtækisins jukust úr einum milljarði í rúmlega 1,6 milljarða. Í framhaldi af kaupum Vísis hafa fjórir nýir stjórnarmenn tekið sæti í stjórn félagsins.Pétur sagði í Morgunblaðinu í gær vera bjartsýnn á rekstur Búlandstinds þrátt fyrir taprekstur og viss um að hægt væri að snúa tapi í hagnað. Skip Vísis hafa róið mikið fyrir austan og landað afla á Austfjörðum.Haraldur L. Haraldsson sem tók tímabundið við starfi framkvæmdastjóra Búlandstind sl. haust sagði við Morgunblaðið að þrennt hafi valdið auknum skuldum á rekstrarárinu. Fyrirtækið hafi keypt nýjan togbát með kvóta, Mánatind. Einnig hafi verið unnið að uppbyggingu á bræðslunni á Djúpavogi. Haraldur sagði að meirihlutakaup Vísis á Búlandstindi væri góð lausn fyrir Djúpavog og Breiðdalsvík en um 130 manns starfa hjá fyrirtækinu á báðum stöðum. Búlandstindur hefur m.a. gert út frystitogarann Sunnutind.