Vísir hefur starfsemi í Helguvík á næstu dögum
Vinnsla á saltfiski fyrir Portúgal
„Það má segja að við séum að fara „back to basics,“ segir Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf. í Grindavík, en fyrirtækið hefur komið upp vélum í Helguvík og mun vinnsla hefjast von bráðar. Í Grindavík er unninn SPIG fiskur en í Helguvík verður unninn PORT fiskur.
Þetta með að hefja vinnslu í Helguvík, er hugmynd sem áður hefur verið reifuð segir Pétur. „Við verðum alltaf að skoða alla hugsanlega kosti í því umhverfi sem við erum í í dag. Þú getur tekið viðtal við mig á föstudegi og það er orðið úrelt á mánudegi. Á föstudeginum fyrir síðasta eldgos vorum við að skipuleggja að hefja vinnslu í frystihúsinu viku seinna, á laugardeginum var ákveðið að loka bænum í þrjár vikur hið minnsta til að kanna betur sprungusvæðin, og á sunnudagsmorgninum var byrjað að gjósa. Eftir það breyttist veruleikinn eðlilega, það voru mikil áföll sem höfðu dunið á okkur dagana á undan og eldgosið var ákveðinn vendipunktur, þá fengum við kannski bara betri sýn á raunveruleikann. Eftir þetta var ljóst að við værum ekki að fara að vinna í Grindavík á næstu vikum og þurftum því að eiga svör við því og þetta með að hefja vinnslu í Helguvík var einn af þeim möguleikum sem við höfðum skoðað ef til þessa kæmi. Hæg heimantökin því húsnæðið er í eigu Síldarvinnslunnar, móðurfélagi Vísis.“
Sú saltfiskvinnsla sem verður í Helguvík er öðruvísi en vinnslan í Grindavík og má segja að horft verði til fyrri tíðar þegar vinnsla hefst þar. „Þetta er sú vinnsluaðferð sem var mest notuð í fiskvinnsluhúsum í Grindavík og víðar lengst af síðustu öld. Enn eru nokkur fyrirtæki á Íslandi sem verka saltfiskinn á þennan hátt. Við munum að mestu nota stóran fisk í þessa vinnslu, en hann verður allur flattur. Þessi fiskur er best til þess fallinn að þurrka hann og fer mengið af honum til Portúgal. Fiskurinn sem við vinnum í Grindavík er unninn á annan hátt og fer að mestu á Spán, Ítalíu og Grikkland. Við ættum að geta hafið vinnslu á næstu dögum en flatningsvél og aðrar vélar eru komnar til Helguvíkur. Hvar fiskinum verður landað kemur bara í ljós, á þessum tíma ársins er fiskurinn kominn hingað á suðvesturhornið svo hvort skipin okkar landi í Hafnarfirði, í Helguvík eða annars staðar, kemur bara í ljós, það er ekki stóra breytan í þessari jöfnu. Við verðum með um 25 starfsmenn af 150 sem eru í Grindavík í eðlilegu ástandi. Það er gott að geta gripið í þetta þarna en við munum eðlilega fylgjast áfram með framvindunni í Grindavík.“ sagði Pétur að lokum.