Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vísa máli læknis við HSS til lögreglu
Þriðjudagur 23. febrúar 2021 kl. 10:07

Vísa máli læknis við HSS til lögreglu

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur vísað máli læknis við stofnunina til lögreglu í kjölfar álits frá Embætti landlæknis þar sem niðurstaða var sú að þjónustu stofnunarinnar við sjúkling sem lést á sjúkradeild síðla árs 2019 hafi verið verulega ábótavant og ekki í samræmi við fagleg viðmið og viðurkennt verklag. Læknirinn sem bar ábyrgð á meðferðinni var settur í leyfi og lét í kjölfarið af störfum við stofnunina.


Yfirlýsing frá framkvæmdastjórn HSS

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) barst 18. þessa mánaðar álit frá Embætti landlæknis þar sem niðurstaða var sú að þjónustu stofnunarinnar við sjúkling sem lést á sjúkradeild síðla árs 2019 hafi verið verulega ábótavant og ekki í samræmi við fagleg viðmið og viðurkennt verklag.

Framkvæmdastjórn HSS lítur þessa niðurstöðu mjög alvarlegum augum og munum við gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að slíkir atburðir endurtaki sig. Við hörmum atburðinn og hugur okkar er hjá aðstandendum.

Eftir að málið kom upp var strax settur enn meiri kraftur í að bæta verkferla sem snúa að utanumhaldi og eftirfylgni með skjólstæðingum heilbrigðisstofnunarinnar.

Læknirinn sem bar ábyrgð á meðferðinni var settur í leyfi og lét í kjölfarið af störfum við stofnunina.

Jafnframt vísaði HSS umræddu máli til lögreglu eins og lög gera ráð fyrir. Af þeim sökum getur stofnunin ekki tjáð sig frekar um málið að svo stöddu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024