Virti ekki þungatakmarkanir á Hafnargötu
Lögregla hafði afskipti af fimm ökumönnum vegna umferðalagabrota í nótt.
Bifreið mældist, í Njarðvík, á 75 km hraða þar sem hámarkshraði er 50 km/klst. Önnur bifreið var stöðvuð þar sem ökumaður hafði tendrað þokuljós en aðstæður voru góðar og engin ástæða fyrir slík ljós. Þriðja bifreiðin var stöðvuð á Hafnargötu, í Keflavík, en um var að ræða vörubifreið en þungatakmarkanir eru á Hafnargötu. Sá ökumaður var einnig ekki með réttindi til að aka svo þungri bifreið.
Fjórði ökumaðurinn var svo stöðvaður þar sem hann var grunaður um ölvun við akstur. Var hann handtekinn og færður í blóð- og skýrslutöku, við svo búið var hann frjáls ferða sinna. Loks hafði lögreglan afskipti af ökumanni í Keflavík þar sem hraði hans mældist 74 km þar sem hámarkshraði er 50 km/klst.