Virkni í gígunum er minni og mögulega slökknað í þeim minnstu
Það virðist hafa dregið úr eldgosinu við Sundhnúksgíga síðasta sólarhringinn. Virkni í gígunum er minni og mögulega slökknað í minnstu gígunum. Einnig hefur gosórói minnkað mjög hægt og rólega undanfarna daga. Megin hraunstraumurinn rennur frá gígunum fyrst í suður og beygir síðan til vesturs. Um helgina hélt hraun áfram að flæða í Melhólsnámuna og hefur nú fyllt hana en heldur áfram að þykkna nær gígunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
GPS mælingar síðustu daga benda til þess að landris sé í gangi í Svartsengi, en mun hægara en áður. Það bendir til þess að enn safnist upp kvika í söfnunarsvæðið undir Svartsengi þótt það sé eldgos í gangi.
Há gildi brennisteinsdíoxið (SO2) mælst síðustu daga
Það hafa mælst há gildi brennisteinsdíoxíð (SO2) í Höfnum og Grindavík síðustu daga og í dag. Þessi styrkur er talinn mjög óhollur og líklegt að flestir gætu fundið fyrir einkennum í öndunarfærum. Mikilvægt er að dvelja innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu. Þetta á ekki síst við þar sem vinna fer fram utandyra, eins og vinnueftirlitið bendir á, þá þurfa fyrirtæki og stofnanir á suðvesturhorni landsins að huga vel að þróun loftgæða vegna mögulegrar hættu á gasmengun. Bendum fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði og kynna sér viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.
Veðurspáin um og eftir hádegi í dag (mánudag) er norðaustan 3-8 m/s á gosstöðvunum og gasmengunin berst því til suðvesturs (yfir Grindavík og Svartsengi), auk þess sem gas gæti safnast saman nærri gosstöðvunum því vindur er fremur hægur. Í kvöld, nótt og framan af morgundegi er útlit fyrir austan 8-13 m/s á gosstöðvunum og mengunin berst þá til vesturs, m.a. yfir Hafnir. Á þessu tímabili er einnig mögulegt að vindur verði suðaustlægur um tíma og gæti mengunar þá orðið vart í Njarðvík, Keflavík og Sandgerði. Gasdreifingarspá er að finna hér.
Hættumat óbreytt
Hættumat hefur verið uppfært og gildir frá kl: 15:00 í dag þangað til 2. apríl, að öllu óbreyttu. Engar breytingar eru á hættumatinu og áfram er hætta af völdum gasmengunar metin mikil á öllum svæðum nema Sundhnúksgígaröðinni (Svæði 3) þar sem hún er metin mjög mikil. Hætta á svæði 4 (Grindavík) er áfram metin mikil vegna jarðfalls ofan í sprungu, sprunguhreyfinga, hraunflæðis og gasmengunar.
(Smellið á kortið til að stækka)