Virkni eldgossins stöðug síðustu daga og land heldur áfram að rísa í Svartsengi
Virkni í eldgosinu við Sundhnúk hefur verið nokkuð stöðug síðan á mánudaginn 25.mars. Órói hefur haldist stöðugur síðan þá sem og virknin í gígunum þremur. Hraun rennur áfram í hrauná til suðurs frá gígunum að mestu ofan á hraunbreiðunni sem myndaðist á fyrstu dögum gossins. Þetta kemur fram í frétt frá Veðurstofu Íslands.
Meðfylgjandi mynd sýnir útbreiðslu hraunsins eins og hún var kortlögð frá gervitunglamynd síðan 26. mars og svæði þar sem breytingar hafa orðið á milli 20. og 26. mars.
Skástrikaðar þekjur sýna svæði þar sem breytingar hafa orðið á hraunbreiðunni á milli 20. og 26. mars. Sá hluti skástrikaða svæðisins sem er rauðlitaður táknar svæði þar sem hraun hafði ekki runnið yfir áður í þessu eldgosi, þ.á.m. er Melhólsnáma sunnan Hagafells. Ljósfjólubláar þekjur sýna svæði þar sem hraun rann frá eldgosum í febrúar og janúar.
Land heldur áfram að rísa í Svartsengi en mun hægar en það hefur gert fyrir þau eldgos eða kvikuhlaup sem orðið hafa á síðustu mánuðum. Það bendir til þess að enn safnist upp kvika í söfnunarsvæðið undir Svartsengi þótt það sé eldgos í gangi. Lítil sem engin skjálftavirkni hefur mælst á svæðinu.
Áfram hætta á gasmengun
Veðurstofan hefur síðustu daga, í samstarfi við Almannavarnir, bætt við gasmælum á tveimur stöðum til að fylgjast með gasmengun (SO2). Annar þeirra er staðsettur við Bláa lónið og hinn á hafnarsvæði Grindavíkur. Þetta er viðbót við þá mæla sem Umhverfisstofnun heldur úti. Báðar stöðvarnar eru að streyma gögnum á vefsíðu Umhverfisstofnunar .
Há gildi brennisteinsdíoxíðs (SO2) mældust í skamma stund í Grindavík í nótt (allt upp í 9000 míkrógrömm/m3) en þau lækkuðu fljótt aftur niður í eðlileg gildi. Há gildi brennisteinsdíoxíðs (SO2) mældust í Bláa lóninu og í Höfnum í gær. Hæst fóru gildin í 7000 microgröm/m3 í Bláa lóninu og í 2000 microgröm/m3 í Höfnum. Slíkur styrkur er talinn mjög óhollur og líklegt að flestir gætu fundið fyrir einkennum í öndunarfærum. Mikilvægt er að dvelja innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu þegar svo há gildi mælast. Huga þarf vel að málum þar sem vinna fer fram utandyra, eins og vinnueftirlitið bendir á, og þá þurfa fyrirtæki og stofnanir á suðvesturhorni landsins að huga vel að þróun loftgæða vegna mögulegrar hættu á gasmengun. Gaslosun frá eldgosinu er líkleg til að valda áfram mengun á Reykjanesskaganum og bendum við fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.
Mynd úr vefmyndavél Veðurstofunnar sem staðsett er á Hópsnesi, suðaustan Grindavíkur. Fyrir miðri mynd er Þorbjörn og gosstöðvarnar þar austan við þaðan sem gosmökkurrin rís og berst undan austanvindi til vesturs.
Veðurspáin í dag (miðvikudag) er austan og norðaustan 5-10 m/s og er útlit fyrir að mengunin berist þá til vesturs og suðvesturs, m.a. yfir Svartsengi, Hafnir og Grindavík. Á morgun, Skírdag er vindáttin heldur ákveðnari norðaustan og berst þá gasmengunin til suðvesturs. Sjá gasdreifingarspá sem reglulega er uppfærð.